Umhverfisstefna

Golfklúbbur Ness – Nesklúbburinn mun vinna að verndun dýralífs og flóru á vellinum og nánasta umhverfi hans.

Frá stofnun Golfklúbbs Ness – Nesklúbbsins 1964 hefur það verið stefna klúbbsins að starfa í sátt við fuglalíf á vellinum og kringum hann. Varpfuglar hafa alltaf notið verndar með sérstökum reglum um golfleik á vellinum. Frá árinu 2010 hefur Golfklúbbur Ness – Nesklúbburinn sett sér heildstæð markmið í umhverfismálum og árið 2014 hlaut klúbburinn fyrstur íslenskra golfklúbba GEO umhverfisvottunina. Golf Environment Organization (GEO) eru alþjóðleg samtök sem vinna að sjálfbærri þróun á forsendum golfíþróttarinnar. Samtökin hafa þróað vottunarkerfi í samræmi við kröfur umhverfissamtaka og golfsambanda í Evrópu og Ameríku. Vottunin lítur ekki einungis að umhverfi og meðhöndlun efna heldur einnig að mannlegu samfélagi. Í úttektarskýrslu GEO við vottun segir m.a. „ Nesklúbburinn og Nesvöllurinn eru hvort tveggja þýðingarmikil dæmi sem læra má af, ekki aðeins um það hvernig stunda má golfleikinn á heilbrigðum forsendum, í sátt og samlyndi við náttúru og umhverfi, heldur einnig og enn fremur hvernig sú starfsemi, sem fylgir golfleiknum og golfvöllum, getur nýst til að stuðla megi að eflingu náttúru, dýralífs og vistkerfa umfram þann veruleika sem líklega hefði blasað við, hefði golfvöllurinn ekki litið dagsins ljós.“  Nánar má sjá um hvað GEO vottunin gengur út á með því að smella hér.

Umhverfismarkmið

 1. Bjóða upp á góðan golfvöll sem er í sátt við náttúrulegt umhverfi vallarins.
 2. Leitast við að bæta okkar árangur í umhverfismálum og fylgja lögum og reglum í umhverfismálum.
 3. Velja ávallt tækni, efni og tæki sem hafa minnst mögulega skaðvænleg áhrif á náttúruna og nota vistvæn hráefni og orku.
 4. Gera kröfu á viðskiptavini og gesti að þeir viti af og taki tillit til markmiða okkar í umhverfismálum.
 5. Fræða starfsfólk um umhverfismál þannig að það geti tekið ábyrgð á umhverfiþáttum í þeirra starfi.
 6. Endurmeta umhverfisstarf klúbbsins og gera grein fyrir því og kynna á opin hátt.

Umhverfisstarf

Starf að umhverfismálum má skipta niður á eftirtalda þætti:

 1. Skerpa vitund allra þeirra sem starfa fyrir klúbbinn um umhverfismál.
 2. Auka þekkingu á flóru og dýralíf á vallarsvæðinu.
 3. Hvetja alla klúbbfélaga til dáða í umhverfismálum.
 4. Nýta orku og efni á umhverfisvænan hátt.
 5. Segja frá umhverfisvinnu á heimasíðu klúbbsins.
 6. Vinna með yfirvöldum og samtökum að málefnum tengdum náttúru.
 7. Umhverfisvinnan tekur tillit til náttúru, landslags, vatns, gróðurs, sorps, orku, menningar og þekkingar á gildi umhverfisverndarreglna.

Náttúruvernd
Taka tillit til og vernda skordýr í umhirðu á grasi og gróðri. Kortleggja hvar er bannað að tína grös og blóm í samræmi við umhverfisnefnd Seltjarnarnesbæjar. Stjórna umferð um mýrar og tjarnir. Halda fyrirlestra um náttúru og umhverfi golfvallarins.

Landslag og menning
Viðhalda tjörnum þannig að þær þorni ekki upp eða séu nægilega stórar fyrir fugla- og skordýralíf. Vernda og viðhalda söguminjum.

Vatn
Vökva nægilega með hámarksnýtingu vatnsveituvatns að leiðarljósi. Viðhalda lágmarks vatni í törnum með vatnsveituvatni í samkomulagi við bæjaryfirvöld.

Áburðargjöf
Gefa áburð á umhverfisvænan hátt með því að nota áburð hofsamlega og nota sem minnst af tilbúnum áburði. Nota vélar sem nýta að mestu vistvæna aflgjafa og eru eins lágværar og kostur er. Skrá alla notkun efna og áburðar.

Sorp og affallsvatn
Flokka og endurnýta sorp. Banna golfiðkendum að henda rusli á völlinn. Halda árlega hreinsunardag með klúbbfélögum við upphaf golftímabils að vori.

Orkunotkun
Nota jarðhita til kyndingar húsnæðis. Nota rafmagnsbíla eins og kostur er. Nota orkusparandi ljósaútbúnað og minnka orkunotkun með velja rafmagnssparandi tæki. Athuga reglulega orkunotkun í eldhúsi.

Fræðsla
Halda námskeið fyrir stjórnendur um umhverfismál. Senda starfsmenn árlega á vinnuverndar- og umhverfisnámskeið.

Umhverfisátak
Hvetja stjórnendur, starfsmenn og klúbbfélaga til virkni í umhverfismálum. Hvetja Golfsamband Íslands til umhverfisátaks í golfklúbbum landsins.

Seltjarnarnes 2022