Árið 2014 veitti Golfsamband Íslands Nesklúbbnum umhverfisvottun GEO, fyrstum golfklúbba á Íslandi. Golf Environment Organization eru alþjóðleg samtök sem vinna að sjálfbærri þróun á forsendum golfíþróttarinnar. Samtökin hafa þróað vottunarkerfi í samræmi við kröfur umhverfissamtaka og golfsambanda í Evrópu og Ameríku. Vottunin lítur ekki einungis að umhverfi og meðhöndlun efna heldur einnig að mannlegu samfélagi. Í úttektarskýrslu GEO við vottun segir m.a. „ Nesklúbburinn og Nesvöllurinn eru hvort tveggja þýðingarmikil dæmi sem læra má af, ekki aðeins um það hvernig stunda má golfleikinn á heilbrigðum forsendum, í sátt og samlyndi við náttúru og umhverfi, heldur einnig og enn fremur hvernig sú starfsemi, sem fylgir golfleiknum og golfvöllum, getur nýst til að stuðla megi að eflingu náttúru, dýralífs og vistkerfa umfram þann veruleika sem líklega hefði blasað við, hefði golfvöllurinn ekki litið dagsins ljós.“ Nánar má sjá um GEO samtökin og vottunina með því að smella hér.