Lög Nesklúbbsins

1. grein

Félagið heitir Golfklúbbur Ness – Nesklúbburinn, skammstafað NK.  Heimili þess og varnarþing er á Seltjarnarnesi.  Félagið er aðili að Ungmennasambandi Kjalarnesþings og Golfsambandi Íslands og því háð lögum, reglum og samþykktum íþróttahreyfingarinnar á Íslandi.

2. grein

Tilgangur félagsins skal vera að efla áhuga á golfíþróttinni og skapa félagsmönnum sem besta aðstöðu til að iðka hana.  Félagið á og rekur golfvöll á Seltjarnarnesi og inniæfingaaðstöðu til golfiðkunar.

3. grein

Inngöngu í félagið fá umsækjendur að fenginni samþykkt félagsstjórnar.  Heimilt er að takmarka fjölda félagsmanna miðað við vallaraðstæður.  Um félagsaðild og önnur skyld mál skal farið að lögum GSÍ og ÍSÍ.

Stjórn félagsins skal ákvarða hámarksfjölda félagsmanna hverju sinni miðað við þá aðstöðu til golfleiks og æfinga sem félagið getur boðið hverju sinni.  Óski fleiri félagsaðildar en unnt er að verða við skal setja umsækjendur á biðlista. Stjórn félagsins skal setja og birta reglur um biðlistann.

Umsækjendur sem sótt hafa um aðild að félaginu og eru á biðlista, sbr. 2.mgr. þessarar greinar og ungmenni 17 ára og yngri geta fengið aukaaðild að félaginu.  Aukaaðild fylgir takmarkaður réttur til leiks á golfvelli félagsins samkvæmt reglum sem stjórnin setur.  Stjórnin skal ákveða hámarksfjölda aukafélaga miðað við þá aðstöðu sem er í boði á hverjum tíma.

4. grein

Við golfleik skal farið að gildandi golfreglum á hverjum tíma (GSÍ / R.&A. G.C of St. Andrews).  Stjórnin setur staðarreglur eftir aðstæðum, enda brjóti þær ekki í bága við almennar golfreglur.  Sú undanþága hefur verið staðfest fyrir Nesklúbbinn af R.&A., að aðstoða megi leikmenn vegna ágangs kríu á vellinum.

Félagsmenn eru skyldugir að fara eftir þeim golfreglum sem gilda á hverjum tíma enda sér stjórnin um að þær séu nægilega kynntar og aðgengilegar félagsmönnum. Stjórnin skal setja reglur um skráningu rástíma, leikhraða, umgengni og framkomu á golfvellinum, á æfingasvæðum og í klúbbhúsinu. Brjóti félagsmaður alvarlega eða ítrekað gegn reglum félagsins getur stjórnin beitt viðkomandi viðurlögum sem geta verið áminning, tímabundinn missir réttinda til þess að mega skrá rástíma, tímabundinn missir réttinda til þess að leika á golfvelli félagsins eða brottvísun úr félaginu. Stjórnin skipar aganefnd til þess að fara með agavald sitt. Brottvísun úr félaginu skal þó ætíð háð samþykki stjórnarinnar.

5. grein

Skylt er að ganga vel um vallarsvæðið og getur slæm umgengni valdið brottvikningu úr félaginu.  Komi til slíks skal tilkynning um brottvikningu vera skrifleg og staðfest af meirihluta stjórnar.

6. grein

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og tekur gildi þegar í stað.

7. grein

Félagar greiða árgjald fyrir hvert ár og er gjalddagi þess 1. febrúar.  Nýir félagar greiði inntökugjald, er þeir ganga í klúbbinn.  Greiði félagar ekki, eða gangi frá árgjaldi  sínu fyrir eða á gjalddaga, hefur stjórnin heimild til að svipta viðkomandi félagsréttindum.  Stjórn klúbbsins hefur heimild til að gera undanþágur um greiðslu árgjalds vegna sérlegra aðstæðna, að hennar mati.

8. grein

Á aðalfundi gerir stjórnin tillögu um árgjald félaga fyrir næsta starfsár.  Stjórnin ákveður önnur gjöld.

9. grein

Kjörgengir til stjórnarstarfa eru lögráða félagsmenn.  Stjórn félagsins skal skipuð sjö mönnum sem kosnir eru á aðalfundi.  Sex stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára í senn, þrír í hvert sinn, en formann félagsins skal kjósa sérstaklega til eins árs í senn.  Tveir skoðunarmenn reikninga eru kosnir saman til eins árs í senn.  Formann, stjórnarmenn og skoðunarmenn má endurkjósa.  Kosning skal vera skrifleg komi fram ósk þar að lútandi.

Mánuði fyrir aðalfund skal stjórnin skipa þriggja manna kjörnefnd sem starfar fram yfir aðalfund.  Tilkynningar um framboð til stjórnar skulu berast kjörnefnd eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund. Hafi eigi borist næg framboð skal kjörnefnd hlutast til um að afla nauðsynlegs fjölda framboða. Framboð skulu kynnt með aðalfundarboði á heimasíðu klúbbsins.

10. grein

Formaður félagsins er aðalforsvarsmaður þess og kemur hann fram fyrir hönd félags og stjórnar þegar við á, auk þess sem hann stýrir stjórnarfundum og sinnir öðrum þeim verkefnum sem stjórnin kann að fela honum og lög heimila.

Formaður félagsins boðar til stjórnarfunda með minnst sólarhrings fyrirvara.  Stjórnarfundur er ákvörðunarbær þegar meirihluti stjórnarmanna tekur þátt í fundarstörfum. Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á því að fjalla um málið, sé þess kostur. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Séu atkvæði jöfn ræður atkvæði formannsins. Fundargerð skal send stjórnarmönnum svo fljótt sem verða má og samþykkt á næsta fundi stjórnarinnar.

11. grein

Á fyrsta fundi stjórnar eftir aðalfund skiptir stjórnin með sér störfum þannig að einn skal vera varaformaður, einn ritari, einn gjaldkeri, en aðrir stjórnarmenn meðstjórnendur.

12. grein

Stjórnin skipar nefndir svo og fulltrúa á fundi og þing á vegum félagsins.  Fastanefndir eru: Forgjafarnefnd, Mótanefnd, Vallarnefnd og Aganefnd.  Aðrar nefndir skipar stjórnin eftir þörfum og setur öllum nefndum starfssvið. Þá er stjórninni heimilt að skipa áheyrnarfulltrúa einstakra hópa innan félagsins hjá stjórn og fastanefndum.

 13. grein

Stjórnin ræður félaginu framkvæmdastjóra og ákveður ráðningakjör hans.  Framkvæmdastjóri stýrir daglegum rekstri félagsins í samræmi við stefnumörkun stjórnar.

 14. grein

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins og skal hann haldinn í nóvember ár hvert.  Til aðalfundar skal boða með minnst 7 daga fyrirvara, á heimasíðu klúbbsins og og með tölvuskilaboðum til þeirra félagsmanna sem hafa tilkynnt netfang sitt. og telst hann lögmætur sé löglega til hans boðað án tillits til þess hve margir mæta.  Atkvæðisrétt á fundum félagsins hafa skuldlausir félagar 18 ára og eldri.

15. grein

Dagskrá reglulegs aðalfundar skal vera sem hér segir:

Fundarsetning

  1. Kjör fundarstjóra og fundarritara
  2. Lögð fram skýrsla formanns
  3. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar
  4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga. Reikningar bornir undir atkvæði.
  5. Lagðar fram tillögur um breytingar á lögum félagsins ef um er að ræða.
  6. Afgreiðsla tillagna til lagabreytinga.
  7. Ákveðið árgjald félaga fyrir næsta starfsár.
  8. Kosning formanns, stjórnarmanna og skoðenda reikninga skv. 9. gr. þessara laga.
  9. Önnur mál.

Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum allra mála, nema þar sem annað er tekið fram í lögum þessum.

16. grein

Reikningsár félagsins er 1. nóvember til 31. október.

17. grein

Lögum þessum má breyta á aðalfundi og þarf 2/3 hluta atkvæða til þess að lagabreyting nái fram að ganga.  Tillaga að lagabreytingum skal hafa borist stjórn félagsins eigi síðar en 1. október hverju sinni og skal vera skrifleg.  Tillögur til lagabreytinga skulu kynntar í aðalfundarboði.

18. grein

Stjórn félagsins boðar til almennra funda eftir þörfum.  Jafnframt er stjórninni skylt að halda félagsfund ef 1/10 félagsmanna óskar þess skriflega og tilgreinir ástæðu.  Slíkan fund skal halda innan þriggja vikna frá því að beiðni kemur fram.  Fundi skal boða með sama hætti og aðalfund skv. 14.gr. laga þessara.

19. grein

Stjórnin fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda og ber að gæta hagsmuna þess í öllum greinum.  Hún hefur umráð yfir eignum félagsins og boðar til funda.  Ákvörðun stjórnar um málefni félagsins er því aðeins gild að meirihluti stjórnarmanna sé henni fylgjandi.

20. grein

Stjórnin getur vikið mönnum úr félaginu álíti hún framkomu þeirra vera félaginu til vansa. Viðkomandi getur þó óskað eftir því að málið verði tekið fyrir á félagsfundi að uppfylltum skilyrðum 18. greinar.

21. grein

Hætti félagið störfum skal boða til sérstaks félagsslitafundar með tveggja vikna fyrirvara og eigi síðar en einu ári eftir að reglulegri starfsemi er hætt.  Slíkur fundur er lögmætur ef helmingur félaga er mættur og 2/3 hlutar fundarmanna samþykkja slíka ákvörðun.  Mæti ekki nægjanlegur fjöldi félaga skal boða til annars fundar innan einnar viku og teljast ákvarðanir hans um félagsslit og ráðstöfun og ráðstöfun eigna félagsins lögmætar án tillits til mætingar.

22. grein

Lög þessi öðlast gildi við samþykki á aðalfundi.  Þannig samþykkt á aðalfundi 25. nóvember 2021 og staðfest af stjórn félagsins með undirritun.