Stjórnarfréttir í maí
Stjórn klúbbsins fundaði miðvikudaginn 29. maí. Auðvitað var byrjað á að tala illa um veðrið og að flestar margæsirnar væru farnar samkvæmt áætlun. Annars var þetta helst á dagskránni:
Blaðið sem verið hefur í vinnslu og dreift verður í öll hús á Seltjarnarnesi n.k. miðvikudagskvöld var kynnt í sem næst endanlegri útgáfu. Tilgangurinn með blaðinu er fjórþættur: 1) Að kynna golf sem áhugamál, útivist og holla hreyfingu fyrir alla aldurshópa, 2) að segja bæjarbúum frá því hvernig félagar klúbbsins leggja sig fram um að lifa í fullri sátt við náttúruna og umhverfi sitt, 3) að hvetja Seltirninga og aðra til þess að sækja veitingahúsið hjá Krissa og 4) að bjóða alla velkomna á Nesvöllinn laugardaginn 8. júní.
Þeir sem hafa tök og áhuga á að hjálpa til við dreifingu blaðsins á miðvikudagskvöldið þann 5. júní eru beðnir að senda póst á haukur@nkgolf.is
Hátíðin 8. júní. Ákveðið var í framhaldi af hugmyndum afmælisnefndar fyrr á þessu ári að bjóða öllum íbúum Seltjarnarness í heimsókn til okkar til þess að kynna starfsemina. Þetta verður gert laugardaginn 8. júní frá kl 13:00-15:00. Gróttumótið fer fram um morguninn þennan sama dag og af þeim ástæðum verður völlurinn lokaður a.m.k. til klukkan þrjú síðdegis.
Sigrún Edda og Haukur eru umsjónarmenn þessa atburðar og stjórnin fer þess á leit við þá sem þau kunna að vilja kalla sér til aðstoðar við framkvæmdina að bregðast vel við því kalli.
Fatamál. Okkar ágæta og smekklega fatanefnd skilaði tillögum sínum til stjórnar. Samþykkt var að fara að tillögunum, sem þýðir að áður en langt um líður verður vandaður golffatnaður merktur klúbbnum í boði fyrir alla sem hafa vilja. Verðinu mun verða stillt í hóf þannig að sem allra flestir sjái sér hag í að kaupa sér t.d. bol eða peysu og ganga síðan um vel klæddir og stoltir af klúbbnum sínum.
Aukinn leikhraði á vellinum. Eins og áður hefur verið nefnt er það forgangsmál að vinna að því að halda uppi eðlilegum leikhraða á vellinum. Ástæður þess eru augljósar: Allir vilja geta leikið völlinn án þess að þurfa að bíða eftir ráshópnum á undan, – og að sjálfsagt og nauðsynlegt er að ná eins mikilli nýtingu á vellinum og mögulegt er til þess að sem flestir komist að.
Orð eru til alls fyrst og Haukur og fleiri hafa nú þegar orðið varir við aukna umræðu um málið og alls konar tillögur og hugmyndir hafa komið fram í spjalli fólks. Langflestir eru þeirrar skoðunar að einfaldasta og besta leiðin til þess að flýta leik sé að fara ekki út af fyrsta teig örar en á 10 mínútna fresti eins og klukkurnar á kerruskúrnum segja til um. Ef allir fylgja þeirri reglu má búast við að lítið sem ekkert þurfi að bíða á hringnum, svo framarlega sem ráshópar hafi hugfast að leika alltaf jafn hratt og hópurinn á undan leyfir. Á næstunni má búast við talsverðum skrifum um málið hér á síðunni – og eru allir félagar hvattir til að líta í eigin barm og spyrja sig hvað þeir geti sjálfir gert til þess að flýta leik.
Talning á umferð um völlinn með myndavél. Samið hefur verið við Securitas um að setja upp myndavélar til þess að skrásetja megi allan leik á vellinum. Tilgangurinn er auðvitað sá að komast að því hversu vel – nú eða illa – völlurinn er nýttur. Með tölfræðina í höndunum má gera ráð fyrir að bæta megi nýtinguna frá því sem nú er. Þar að auki mun hún nýtast okkur í baráttunni fyrir aukinni aðstöðu. Einnig bindur stjórnin nokkrar vonir við að myndavélin virki sem aðhald varðandi leikhraða, fjölda í ráshópum og hversu ört er farið út af fyrsta teig.
Áður en vélarnar verða gangsettar, sem vonandi verður á allra næstu dögum, munu verða sett upp skilti til þess að vekja athygli á að fylgst sé með svæðinu með myndrænum hætti.
Með von um að golfsumarið sé nú loksins hafið, sendir stjórnin félögum bestu kveðjur.