Hreinsunardagurinn á laugardaginn í sumarveðri

Nesklúbburinn

Laugardaginn 9. maí næstkomandi verður hinn árlegi hreinsunardagur Nesklúbbsins.  Dagurinn sem að öllu jafna markar upphaf nýs timabils hjá Nesklúbbnum hefst venju samkvæmt með vinnu félagsmanna á milli kl. 10.00 og 12.00.  Það verður eitthvað fyrir alla að gera þar sem fjölmörg verkefni liggja fyrir, en m.a. verður þökulagt á nokkrum stöðum, borið verður á skálann, rusl hreinsað af vellinum og fjöldinn allur af fleiri spennandi verkefnum.  

Í hádeginu verður svo slegið upp pylsupartýi á pallinum fyrir alla sem tóku þátt í morgunverkefnunum.  Að henni lokinni, eða um kl. 13.00 hefst svo hreinsunarmótið sem er með léttu yfirbragði þar sem leiknar verða 9 holur eftir texas-scramble fyrirkomulagi (nánar auglýst á laugardaginn).  Það er engin skylda að taka þátt í mótinu en að sama skapi er skylda að hafa tekið þátt í hreinsuninni til þess að fá að taka þátt í mótinu.  Opnað verður inná teiga og sumarflatir og gefst félagsmönnum því kostur á að leika völlinn í öllu sínu veldi þennan dag í fyrsta skipti á árinu.

Búið er að lofa sannkölluðu draumaveðri miðað við undanfarnar vikur eða heilum 5 gráðum og hægviðri.  Það eru því allir félagsmenn hvattir til að mæta með vinnuhanskana og góða skapið og taka þátt í skemmtilegum degi í frábærum félagsskap.

Margar hendur vinna létt verk – MÆTUM ÖLL