Meistaramót 2015 – lokadagur

Nesklúbburinn

Í dag laugardag var lokadagur meistaramóts Nesklúbbsins 2015. Veðurguðirnir voru kylfingum sérstaklega hliðhollir í dag og má segja að mótinu ljúki eins og það byrjaði. Það var nokkuð um sviptingar í efstu sætunum á lokahringnum og úrslit réðust oft á síðustu holunum. 

 

2. flokkur karla – úrslit: 

2. flokkur karla reið á vaðið í morgun og luku leik um hádegisbil. Spennan var mikil í þessum flokki fyrir lokahringinn og fá högg á milli kylfinga. Davíð Kristján Guðmundsson vann glæsilegan sigur með frábærum lokahring upp á 81 högg. Sverrir spilaði hringina fjóra á 340 höggum samtals og átti þegar upp var staðið fimm högg á Sverri Briem sem varð annar. Sverrir sem var í forystu eftir fyrsta daginn var í fjórða sæti fyrir lokahringinn en spilaði sig upp í annað sætið með flottum lokahring upp á 83 högg. Gylfi Geir Guðjónsson varð þriðji, höggi á eftir Sverri. 

Staða Kylfingur   Alls
D1 D2 D3 D4 Alls Mismunur
1 Davíð Kristján Guðmundsson 88 87 84 81 340 52
2 Sverrir Briem 81 90 91 83 345 57
3 Gylfi Geir Guðjónsson 82 88 82 94 346 58

Meistaraflokkur kvenna – úrslit: 

Í meistaraflokki kvenna var æsispennandi lokadagur. Margfaldur klúbbmeistari, Karlotta Einarsdóttir, var með sjö högga forystu fyrir lokahringinn og ljóst að það yrði erfiður róður fyrir klúbbmeistara síðustu tveggja ára, Helgu Kristínu Einarsdóttur, að vinna upp þennan mun. Helga Kristín spilaði aftur á móti frábært golf í dag og lék á pari vallar, en Karlotta lék á 80 höggum. Átta högga sveifla í dag, þar af þrjú högg á síðustu holunni og Helga Kristín tryggði sér sigur þriðja árið í röð. Helga Kristín Gunnlaugsdóttir var svo örugg í þriðja sæti. 

Staða Kylfingur   Alls
D1 D2 D3 D4 Alls Mismunur
1 Helga Kristín Einarsdóttir 73 81 78 72 304 16
2 Karlotta Einarsdóttir 71 80 74 80 305 17
3 Helga Kristín Gunnlaugsdóttir 80 85 83 75 323 35

1. flokkur karla – úrslit: 

Í fyrsta flokki karla þurfti bráðabana til að knýja fram úrslit. Hallur Dan Johansen spilaði manna best í dag á 74 höggum og 311 höggum samtals. Það gerði einnig Valur Kristjánsson og urðu þeir Hallur jafnir í efsta sæti. Úrslit réðust ekki fyrr en á sjöttu holu bráðabana, þar sem Valur hafði betur er hann fékk flottan fugl. Eiður Ísak Broddason varð þriðji á 317 höggum samtals. 

Staða Kylfingur   Alls
D1 D2 D3 D4 Alls Mismunur
1 Valur Kristjánsson 81 78 76 76 311 23
2 Hallur Dan Johansen 78 77 82 74 311 23
3 Eiður Ísak Broddason 79 81 75 82 317 29

Meistaraflokkur karla – úrslit: 

Ólafur Björn Loftsson varð klúbbmeistari karla, en hann spilaði hringina fjóra á 274 höggum samtals, eða fjórtán höggum undir pari. Oddur Óli Jónasson varð annar á 281 höggi – sjö undir pari vallar – og Nökkvi Gunnarsson þriðji á 285 höggum samtals, sem eru þrjú högg undir pari. 

Staða Kylfingur   Alls
D1 D2 D3 D4 Alls Mismunur
1 Ólafur Björn Loftsson 72 68 66 68 274 -14
2 Oddur Óli Jónasson 70 73 72 66 281 -7
3 Nökkvi Gunnarsson 74 70 72 69 285 -3

Þá er 51. meistaramóti Nesklúbbsins lokið. Lokahóf fer fram í kvöld þar sem veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í öllum flokkum ásamt því að veitt verða verðlaun fyrir Ecco Bikarkeppnina með og án forgjafar. Það verður án efa mikið skrafað um síðastliðna viku langt fram á nótt, höggin, veðrið, völlurinn og allt annað rætt í þaula. Svo halda kylfingar áfram að æfa sig frá og með morgundeginum, einhverjir vilja bæta sig eftir slakan árangur en aðrir vilja gera enn betur eftir góðan árangur. Þannig er jú golfið, fyrst og fremst keppni við mann sjálfan og alltaf góð ástæða til að drífa sig út á golfvöll. 

Nesvöllurinn er í frábæru standi og opinn öllum kylfingum á ný.