Eins og fram kom á heimasíðu klúbbsins í vikunni mun Nesklúbburinn standa fyrir stórskemmtilegum púttmótum fyrir alla félagsmenn á sunnudögum í vetur. Samtals verða þetta 14 mót og eru öll mótin bæði sjálfstæð þar sem veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í hverju móti. Þá mun hvert mót líka telja til stiga í heildarkeppni (sjá neðar) þar sem gefin verða stig fyrir árangur hverju sinni. Lokamótið sem haldið verður svo sunnudaginn 9. apríl verður með örlítið öðru sniði en hin mótin (sjá neðar).
Verðlaunin í hverri viku verða eftirfarandi:
1. sæti: Klukkutími í golfherminum og hálftími í Flightscope höggnemanum
2. sæti: Klukkutími í golfherminum
3. sæti: hálftími í Flightscope höggnemanum
Á morgun, sunnudaginn 8. janúar verður fyrsta mótið haldið og það eina sem þarf að gera er bara að mæta og hefja leik einhverntíman á milli kl. 11.00 og 13.00.
Reglurnar eru eftirfarandi:
* Leiknar eru 18 holur og kostar hver hringur kr. 500
* Óheimilt er að leika „keppnishringinn“ áður en leikur hefst en heimilt verður að hita upp eins og hver og einn vill.
* Heimilt er að spila fleiri en einn hring hverju sinni og kostar þá hver aukahringur kr. 500 en eingöngu besti hringurinn telur.
* Hægt er að hefja leik á milli kl. 11.00 og 13.00
* Verði tveir eða fleiri jafnir í verðlaunasætum telja fyrst seinni 9, svo síðustu 6, þá síðustu 3 og að lokum síðasta holan. Verði keppendur ennþá jafnir verður varpað hlutkesti.
Aðrar reglur verða kynntar á staðnum
Heildarkeppnin:
Veitt verða stig fyrir 10 efstu sætin í hverju móti. Að loknum mótunum 14 verða svo veitt verðlaun fyrir stigahæsta keppandann þar sem 7 efstu mótin hjá hverjum og einum telja og hlýtur hann í verðlaun eitthvað mjög flott sem verður ákveðið síðar.
Stigagjöf:
1. sæti – 12 stig
2. sæti – 10 stig
3. sæti – 8 stig
4. sæti – 7 stig
5. sæti – 6 stig
6. sæti – 5 stig
7. sæti – 4 stig
8. sæti – 3 stig
9. sæti – 2 stig
10. sæti – 1 stig
ATH: verði tveir eða fleiri jafnir munu stigin deilast á milli þeirra og á það við um öll sæti.
Lokamótið:
Sunnudaginn 9. apríl verður mótið tvískipt. Annarsvegar hefðbundið púttmót samkvæmt ofangreindu fyrirkomulagi. Að því loknu hefst lokamótið og munu í því hafa þátttökurétt allir þeir sem lent hafa í þremur efstu sætunum í einhverju af púttmótunum. Veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin fyrir lokamótið og verða reglur og verðlaun fyrir það mót nánar auglýst síðar.