Föstudaginn 4. apríl var 50 ára afmæli klúbbsins fagnað í golfskálanum. Áætlað er að gestir hafi verið um 220. Þar voru fulltrúar Seltjarnarnessbæjar, GSÍ, UMSK, margra golfklúbba og eins og alltaf létu félagarnir sjálfir sig ekki vanta. Þá eru ótalin þau Sigríður Hrefna Magnúsdóttir ekkja Péturs heitins Björnssonar og Ragnar J Jónsson, en eins og kunnugt er stofnuðu þeir félagar einir Golfklúbb Ness, þótt allir sem gengu í klúbbinn á fyrsta ári væru skráðir stofnfélagar.
Dagskráin hófst með ávarpi formanns afmælisnefndar, Eggerts Eggertssonar. Fjölskylda Péturs færði klúbbnum málverk að gjöf og voru frú Sigríður og Ragnar J sérstaklega hyllt í tilefni dagsins. Innrammað æviskírteini Agnars Kufod Hansen lögreglustjóra í Reykjavík frá því um 1965 var afhent klúbbnum til eignar frá Björgu dóttur hans og Selma Hannesson myndlistarkona sem vann glermyndina með merki klúbbsins sem allir þekkja úr skálanum færði okkur glermynd úr Gróttu.
Gullmerki Nesklúbbsins var afhent þeim Eggerti Eggertssyni og Þorvaldi Jóhannessyni, og Jón Ásgeir Eyjólfsson, sem bæði er fyrrverandi formaður klúbbsins og fyrrverandi forseti GSÍ, lét það verða sitt síðasta embættisverk að næla gullmerki GSÍ í Þorkel Helgason.
Forseti GSÍ, Haukur Örn Birgisson, flutti ávarp og færði klúbbnum áletraðan og skreyttan vasa. Valdimar Friðriksson, formaður UMSK flutti einnig kveðjur og færði okkur vatnsból sem sett verður upp í skjólinu við 5. teig og Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri hélt tölu og færði okkur veðurstöð að gjöf sem sett verður upp við skálann og tengd heimasíðunni.
Hörður Þorsteinsson framkvæmdastjóri GSÍ færði fundarmönnum þau merkilegu og gleðilegu tíðindi að í vikunni hefði lokið viðamiklu ferli sem unnið hefur verið að síðastliðin 3 ár. GSÍ hleypti verkefninu af stokkunum árið 2010 og Nesklúbburinn hefur nú fyrstur íslenskra golfvalla hlotið umhverfisvottun alþjóðlegu samtakanna Golf Environment Organization. Klúbburinn er númer 114 í röðinni á heimsvísu til að hljóta þessa vottun og er þar með kominn í góðan hóp golfklúbba eins og t.d. St. Andrews, Carnoustie og Turnberry en sá síðastnefndi hlaut einmitt vottunina í febrúar s.l. Það er full ástæða fyrir félaga Nesklúbbsins að fyllast stolti yfir þessum merka áfanga og hugsa hlýtt til Eggerts Eggertssonar sem borið hefur hitann og þungann af verkinu ásamt Hauki Óskarssyni og Hauki Jónssyni vallarstjóra. Þá ber að þakka Edwin Roald Rögnvaldssyni fyrir góða hvatningu og samstarf, en Edwin er úttektaraðili hérlendis fyrir GEO.
Hér má sjá myndir sem vildarvinur klúbbsins Guðmundur í Nærmyndtók í afmælishófinu.
http://naermynd.photoshelter.com/gallery/NK-50-ara/G0000U.S969Rc8Yw/C0000WinuMrcOMj0