Dagurinn í dag – hverjar eru líkurnar á Albatros

Nesklúbburinn

Nú styttist í hinn endann, veðurguðirnir halda áfram að gleðja okkur og eins og spáin lítur út fyrir næstu daga stefnir allt í að þetta Meistaramót verði með þeim betri í seinni tíð svona allavegana veðurfarslega séð.  Einn flokkur lauk leik í dag, annar mun ljúka leik á morgun og svo klára þeir sem eftir eru á laugardaginn.  Úrslit og stöður í öllum flokkum má sjá hér

Dagurinn gekk nokkuð vel, það voru á köflum margir ráshópar á vellinum og það tók sinn tíma.  Við minnum bara enn og aftur á það að reyna að halda í við ráshópinn fyrir fram okkur – reynum okkar besta, við getum ekki gert betur en það.

Þau mögnuðu tilþrif gerðust í dag að leikmaður í Meistaraflokki kvenna fékk Albatros þegar Helga Kristín Gunnlaugsdóttir lék sjöundu brautina sem er par 5 hola á tveimur höggum.  Samkvæmt heimasíðu PGA eru líkurnar á því að ná slíku draumahöggi 1 á móti 6milljón á meðan t.d. líkurnar á því að fara holu í höggi eru 1 á móti 12.000.  Geggjað hjá Helgu Kristínu og við óskum henni innilega til hamingju. Skemmtilega grein um slíka tölfræði má sjá hér:

Við viljum að lokum minna fólk á að skrá sig í lokahófið – það fengu allir keppendur SMS skilaboð í dag hvað það varðar, skráningu lýkur kl. 12.00 á morgun og er hægt að skrá sig hér eða á skrifstofunni.

Gangi ykkur sem allra best á morgun.

Mótsstjórn