Dagurinn í dag – þetta var góður dagur

Nesklúbburinn

Fimmti dagur Meistaramótsins 2020 – einfaldlega frábær dagur að líða undir lok.  Nú hafa allir flokkar hafið leik og er dálítið merkilegt að fylgjast með leikhraða flokkanna.  Í langflestum tilfellum eru allir flokkar að standa sig rosalega vel, þetta er fjölmennt mót – við vissum að það yrðu tafir en á endanum geta sumir flokkar geta gert betur. 

Punktar dagsins falla nú undir hinar margfrægu golfreglur.  Það er náttúrulega alveg galið að þessi „einfalda“ og skemmtilega íþrótt sé búin svona flóknum reglum sem er samt mjög gaman að velta sér uppúr fyrir þá sem vilja – það gerist yfirleitt í Meistaramóti.  Í öllum mótum koma upp vafaatriði sem enginn reiknar með.  Þau eru ótrúlega mörg samt í Meistaramóti, enda keppendur þar sennilega extra mikið að vilja gera hlutina eftir bókinni – það er eðlilegt.  Þá njótum við í Nesklúbbnum þess að hafa góða golfdómara í okkar röðum og við ætlum nú að taka tvö dæmi sem hefur verið tíðrætt um:

* ROBOTARNIR, hvað má eiginlega gera ef þeir trufla? 
    A: Ef bolti hittir Robot – „óheppni“, þú verður að slá boltann þar sem hann endar (Ef hann fer utan vallar þá er það víti).
    B: Ef boltinn lendir upp við Robot/hleðslustöð Robots – Frídropp (stysta leið þar sem Robotinn/hleðslustöðin truflar ekki).

* Ef boltinn þinn lendir upp við fisk (sjá mynd), hvað má eiginlega gera?  Þessi merkilega staða kom upp á 7. braut í dag hjá leikmanni í 1. flokki karla og upp kom vafaatriði, hvað má hann gera?  Samkvæmt skilgreiningum golfreglnanna er það mjög einfalt:
    A: Ef fiskurinn er dauður þá er hann samkvæmt golfregnum „lausung“ og má fjarlægjast.
    B: Ef fiskurinn er ekki dauður þá skal kallað til dómara sem myndi væntanlega veita lausn til að forða honum frá skaða.

Þannig að ef þið sjáið lifandi fisk á 7. braut – hringið í dómara.  Það er með öllu óvitað hvernig þessi rauðmagi komst upp á 7. braut í dag en hann var látinn og kylfingurinn fékk lausn.

Fyrir framhaldið:

* Haldið áfram að hafa gaman og sýnið þolinmæði 

* það voru nokkrir flokkar sem mættu vera duglegri við að fylla inn „LIVE“ skor – það þarf bara einn í hverjum ráshópi, er engin skylda en tekur viðkomandi enga stund og býr til stemningu fyrir þá sem eru að fylgjast með á netinu og sérstaklega uppi í skála. 

* Sérréttur dagsins í veitingasölunni á morgun, fimmtudag er: „kjúklinga WOK“ – Þessi réttur er hverrar krónu virði.

Megi öllum ganga sem allra best í blíðunni á Nesvellinum á morgun

Mótsstjórn