Kæru félagar,
Eftir síðasta pistil frá mér sem snérist mikið um breyttar aðstæður í golfheiminum og nýjar umgengisreglur á golfvellinum, hefur mikið vatn runnið til sjávar. Við gátum loks opnað völlinn og veitingasöluna og félagsmenn notið þess að spila golf þó með takmörkunum hætti væri. Ég held að enginn hafi þó séð fyrir framhaldið og allra síst við í stjórninni því óvissan var mikil með nýja forgjafarkerfið og Golfboxið sem satt best að segjast byrjaði ekki vel. Það getur stundum reynst þrautin þyngri að innleiða og læra á nýja tækni en þetta hefur þó allt reddast og horfir til betri vegar með magra manna hjálp og þolinmæði félaga.
Stjórn klúbbsins hélt fund í lok síðustu viku og voru þar tvö meginmál á dagskrá:
BOLTARENNAN/RÁSTÍMAR:
Fulltrúi Gallup fór í gegnum niðurstöður skoðanakönnunar meðal félagsmanna. Megin tilgangur könnunarinnar var að kanna hug félagsmanna og leyfa þeim að kjósa á milli gömlu góðu boltarennunnar eða rástímabókanna sem settar voru upphaflega á tímabundið í ljósi ástandsins. Auk þess voru lagðar nokkrar fleiri spurningar fyrir félagsmenn. Þannig fengu allir að segja sinn hug og var afar ánægjulegt að sjá svarhlutfallið sem var yfir 80% sem þykir afar góð þátttaka. Niðurstöðurnar voru eins og áður hefur komið fram afgerandi og tók stjórnin afstöðu út frá þeim. Fyrir þá sem vilja kynna sér niðurstöðurnar nánar vísa ég í frétt sem birtist hér fyrr í dag á heimasíðu klúbbsins.
FRAMTÍÐARSKIPULAG VALARINS:
Undanfarin ár hafa átt sér stað þónokkrar umræður um slysahættur á vellinum okkar, breytingar og framkvæmdir á vellinum. Við búum einfaldlega við dásamlegt en um leið þröngt landssvæði fyrir golfvöll að vera á. Á öllum golfvöllum eru slysahættur og á okkar velli eru þær nokkuð margar. Það eru því skýr markmið okkar að reyna eftir fremsta megni að reyna að fækka þeim eins og mögulegt er. Samhliða þessu viljum við bjóða upp á besta 9 holu golfvöll á Íslandi, æfingasvæði og traust og öruggt umhverfi fyrir gesti.
Í vor samþykkti stjórn að Bjarni Hannesson vallarstjóri myndi leita tilboða fagaðila fyrir hugmyndir að framtíðarskipulagi á vellinum með það að markmiði fyrst og fremst að fækka hættum og vernda náttúru og fuglalíf ásamt því að bjóða upp á góða aðstöðu. Bjarni kom á fundinn okkar í síðustu viku og kynnti tillögu sína. Með þekkingu sinni og reynslu fékk hann tilboð frá Tom Mackenzie, einum allra fremsta golfvallarhönnuði í heimi. Sá maður hefur meðal annars endurhannað 7 British Open velli, er hugmyndasmiðurinn að núverandi breytingum hjá Golfklúbbnum Keili og svo margt, margt fleira. Eins og Bjarni orðaði það á fundinum ?Fyrir þá sem ekki þekkja hann er þetta Tiger Woods-inn í golfvallahönnun?. Tilboðið var samþykkt af hálfu stjórnar enda var það vel innan þeirra marka sem lagt var upp með. Það verður því spennandi að sjá hvað kemur út úr þessum tillögum en von er á Mackenzie hingað til lands seinni hluta júlí og vonandi liggja fyrir tillögur í haust eða vetur og verða þær síðan kynntar fyrir félögum klúbbsins. Þangað til hvetjum við félaga NK að fara varðlega á vellinum og sýna hver öðrum tillitssemi.
Í framhaldi af því vil ég segja að sú frétt sem var send út frá stjórn um daginn er varðar 9. Teiginn, tengist einni af mörgum slysahættum á vellinum. Það eru margar hætturnar en ákveðið var að bregðast við þessari eftir það sem á undan hafði gengið, við vonum að kylfingar virði það.
Að lokum vil ég þakka öllum þeim félagsmönnum sem tóku þátt í skoðanakönnuninni. Að sögn Gallup er þátttakan með því mesta sem þeir sjá í slíkum könnunum og undirstrikar það hversu mikið hjartans mál þetta er hjá félagsmönnum ásamt því enn og aftur hversu virkur klúbbur við erum. Meirihlutinn réði og tel ég það um leið lýðræðislegt. Ég vil líka taka það fram að fjölmargar athugasemdir bárust frá ykkur og við munum horfa til þeirra allra upp á framhaldið. Algengasta og sennilega um leið eðlilegasta athugasemdin var með salernisaðstöðu úti á velli. Við því var strax brugðist síðasta föstudag og er nú búið að setja upp ferðasalerni fyrir alla kylfinga rétt vestan við 5. teiginn. Það er tímabundin lausn sem verður betrumbætt síðar.
MEISTARAMÓT:
Þegar þetta er skrifað stefnir í fjölmennasta Meistaramót klúbbsins fyrr og síðar. Þetta verður vonandi frábært Meistaramót og ég óska öllum þátttakendum alls hins besta í mótinu. Höfum umfram allt gaman og njótum góðrar samveru og góðra veitinga í skálanum. Ég minni á að þar verður réttur dagsins alla daga, skorið að sjálfsögðu á töflunni og hvort sem þið takið þátt eða ekki, komið við og verið með. Stjórnarfólk NK verður á vellinum þessa dagana og er alltaf til í spjall ef það er eitthvað liggur ykkur á hjarta.
Með golfkveðju,
Kristinn