Það voru hátt í 60 félagar í klúbbnum sem tóku þátt í fjórða og síðasta mótinu í októbermótaröðinni sem haldið var síðastliðinn sunnudag. Dagurinn þótti heppnast ákaflega vel, enda leikið inn á sumarflatir og veðurguðirnir buðu upp á rjómablíðu þennan síðasta sunnudag í október. Að venju var leikin punktakeppni og voru veitt verðlaun fyrir þrjú efstu sætin. Einnig voru veitt sérstök verðlaun fyrir heildarárangur í mótaröðinni og var það Björn B. Þorláksson sem bar sigur úr býtum en hann hlaut að lokum 7 stig sem hann fékk í þremur mótum af fjórum í mótaröðinni. Annars voru helstu úrslit mótsins á sunnudaginn eftirfarandi:
1. sæti: Björgólfur Jóhannsson – 23 punktar
2. sæti: Sonja Hilmars – 22 punktar
3. sæti: Þuríður Halldórsdóttir – 21 punktur
4. sæti: Emma María Krammer – 21 punktur
5. sæti: Björn B. Þorláksson – 19 punktar
Foreldraráð vill koma á framfæri innilegu þakklæti fyrir allan þann stuðning sem félagar í klúbbnum hafa sýnt ungviði klúbbsins með þátttöku í októbermótaröðinni. Ljóst þykir að mót sem þessi vekja lukku á meðal félagsmanna þegar veður leyfir og eru svo sannarlega komin til að vera.