Góður árangur á íslandsmóti unglinga í holukeppni

Nesklúbburinn

Íslandsmót unglinga í holukeppni fór fram á Þorlákshafnarvelli í vikunni.  Rok og rigning setti svo sannarlega svip sinn á mótið en 135 krakkar og unglingar létu það ekki á sig fá og spiluðu til þrautar í öllum flokkum.  Leikið var í sex flokkum og tóku þrír unglingar frá Nesklúbbnum þátt í mótinu.  Eiður Ísak Broddason lék í piltaflokki 17 – 18 ára, Helga Kristín Gunnlaugsdóttir í stúlknaflokki 17 – 18 ára og Helga Kristín Einarsdóttir í telpnaflokki 15 – 16 ára.  Fyrst var leikinn höggleikur og komust 16 efstu í hverjum flokki komust áfram í holukeppni þar sem leikið var eftir úrsláttarfyrirkomulagi.  Skemmst er frá því að segja að öll komust Neskrakkarnir áfram. 

Helga Kristín Gunnlaugsdóttir var í 10. sæti eftir höggleikinn í sínum flokki og spilaði á móti Bryndísi Ragnarsdóttur í 16 manna úrslitum.  Helga laut þar lægra haldi 3/1.

Eiður Ísak Broddason komst í 8 manna úrslit eftir glæsilegan sigur í 16 manna úrslitunum.  Eiður fór 16. inn í 16 manna úrslitin og lenti þar á móti Benedikt Sveinssyni úr Keili sem sigraði höggleikinn í piltaflokki 17 – 18 ára.  Eiður sigraði Benedikt að lokum eftir maraþon viðureign þar sem úrslit lágu ekki ljós fyrr en á 20. holu í bráðabana.  Eiður tapaði svo fyrir Ísak Jasonarsyni í átta manna úrslitum.

Bestum árangri náði þó Helga Kristín Einarsdóttir.  Helga Kristín var í fimmta sæti eftir höggleikinn og lenti í 16 manna úrslitum á móti Alexöndru Grétarsdóttur GOS og sigraði Helga þann leik 1/0.  Í 8 manna úrslitum spilaði hún svo á móti Sigurlaugu Jónsdóttur úr Keili og sigraði Helga hana 2/0.  Í undanúrslitum keppti Helga við sigurvegara höggleiksins, Ragnhildi Kristinsdóttur GR og hafði Ragnhildur betur að lokum 3/1.  Í keppni um þriðja sætið léku þær Helga Kristín og Sara Hinriksdóttir úr Keili hörkuleik þar sem úrslit réðust ekki fyrr en á síðustu holu og hafði Sara betur 1/0.  Frábær árangur hjá Helgu sem endaði í fjórða sæti í sínum flokki.

Í heildina mjög góður árangur hjá þeim öllum og óskar Nesklúbburinn þeim öllum til hamingju með árangurinn.