Hvernig leikum við vetrargolf á Nesvellinum?

Nesklúbburinn

Með hækkandi sól og jafn góðu veðri og verið hefur undanfarnar vikur hefur það færst í aukana að félagsmenn klúbbsins mæti út á völl og taki nokkrar holur.  Það er að sjálfsögðu af hinu góða enda völlurinn sérstaklega settur í vetrarbúning á haustin og þannig undir það búinn að taka á móti sem flestum.  Að leika vetrargolf er þó þeim skilyrðum háð að farið sé eftir þeim reglum sem settar eru fram til þess að hlífa vellinum eins og mögulegt er.  Undanfarið hefur því miður borið á því að þeim reglum sé ekki framfylgt og verða þær því rifjaðar upp hér:

*  Völlurinn er eingöngu opinn félagsmönnum Nesklúbbsins
*  Óheimilt er að leika af brautum nema með tí-i
           Þannig skulu kylfingar annaðhvort setja boltann sinn á tí ef þeir ætla að leika af brautum
           eða færa hann stystu leið út í kargann (röffið) og leika þaðan (engin torfuför á brautum)
*  Óheimilt er með öllu að leika inn á sumarflatir vallarins

Þessar reglur eru eingöngu settar fram með það að markmiði að hlífa vellinum eins og kostur er á fyrir sumarið.  Því er hér biðlað til félagsmanna að þeir leggi sig fram við og um leið hjálpist að við að framfylgja þeim svo völlurinn komi eins vel undan vetri og möguleiki er á og þannig um leið gera það kleift að hafa hann opinn á veturna um ókomna tíð.