Nökkvi Gunnarsson golfkennari og kylfingur í Nesklúbbnum sigraði í dag á Íslandsmóti 35 ára og eldri sem haldið var í Vestmannaeyjum. Nökkvi lék í fyrsta flokki karla og var hörð barátta um sigurinn á lokadegi mótsins í dag. Vegna óhagstæðrar veðurspár var mótinu flýtt um rúma klukkustund í morgun og fóru fyrstu menn út kl. 06.00. Fyrir daginn í dag var Nökkvi tveimur höggum á eftir efsta manni og var í fjórða sæti. Nökkvi lék hinsvegar mjög stöðugt golf í dag á meðan mótspilarar hans misstigu sig í hvassviðrinu. Nökkvi sem lék í næstsíðasta ráshópi fékk par á síðustu holunni sem skilaði honum tveggja högga forystu á næstu menn fyrir þeirra síðustu holu. Þrátt fyrir að tveir þeirra hafi fengið fugl á síðustu holuna dugði það ekki til og eins höggs sigur Nökkva á næstu tvo menn því staðreynd. Sigur Nökkva er fyrsti sigur kylfings úr Nesklúbbnum í lægsta forgjafarflokki á Íslandsmóti 35 ára og eldri. Sannarlega glæsilegur árangur og óskar Nesklúbburinn honum innilega til hamingju með árangurinn.