Kylfingar hafa líklegast tekið eftir sláttuvélmenninu sem liðar um röffið á milli þriðju og fjórðu braut. Uppsetning vélmennisins er tilraunaverkefni í samvinnu við MHG verslun, sem er umboðsaðili Husqvarna á Íslandi.
Husqvarna hefur framleitt og selt slíka „sláttubota“ í að verða 25 ár, þannig að tæknin er ekki ný af nálinni. Vélarnar eru afskaplega vinnsælar á norðurlöndunum, en um 30% af öllum sláttuvélum sem seldar eru í heimagarða í Noregi eru vélmenni í dag.
Með aukinni tækni er farið að vera möguleiki að innleiða slíkar vélar á golfvelli. Tæknin er m.a. fólgin í GPS stýringum og flotastjórnun (þar sem aðein ein aðgerð í smáforriti/tölvu getur breytt stillingum á mörgum vélum í einu). Kostnaðurinn hefur einnig lækkað, og er nú kominn í mjög samkeppnishæft verð miðað við hefðbundnari sláttuvélar. Í okkar tilfelli kostar það álíka mikið að kaupa eina röffsláttuvél og að koma upp 20 sláttubotum sem ráða við allt slegið röff á vellinu.
Við viljum vita hvort vélarnar trufli kylfinga við leik. Ef við getum látið þá vinna allann daginn, þá þurfum við færri vélar. En ef vélarnar eiga eingöngu að vinna á næturnar, þá þarf fleiri vélar sem er kostnaðarsamt. Það væri því flott að heyra frá kylfingum hvað þeim finst um vélina.
Þess má geta að ef vél nálgast, og þið viljið að hún fari í burtu, þá er best að láta vélina keyra létt á ykkur, því það fær hana til að stoppa og snúa við. Þið þurfið ekki að hafa áhyggjur af því að reka tær í sláttuhnífana, þeir eru töluvert langt undir vélinni.
Einnig má benda kylfingum á það að ef vélin keyrir yfir golfbolta og ýtir honum dýpra ofan í grasið, þá segir það í golfreglum að kylfingur á rétt á þeirri legu sem golfhöggið skapaði. Það þíðir að það má lyfta boltanum aftur upp í þá stöðu sem hann var í áður en vélinn keyrði yfir hann.
Hér má svo finna hlekk að myndbandi sem útskýrir þessar vélar betur fyrir áhugasama.
kv. Vallastjóri