Fjórði reglulegi fundur stjórnar á starfsárinu var haldinn þriðjudaginn 12. mars s.l.
Það skorti sannarlega ekki umræðuefni á þessum fundi og fara helstu atriði hér á eftir.
Nefndir klúbbsins. Samþykkt voru starfsbréf fyrir nefndir á vegum klúbbsins. Þau eru ætluð til þess að auðvelda og skýra starfið en eru líka nausynlegt innlegg í umhverfisvottunarferlið sem unnið er að og umsókn klúbbsins um að verða fyrirmyndarfélag innan ÍSÍ. Í sama tilgangi var gengið frá skipuriti fyrir klúbbinn.
Þessi skjöl verða öllum aðgengileg á nkgolf undir „skjöl“ innan tíðar.
Fundur með nefndarformönnum verður haldinn á næstunni m.a. til undirbúnings kynningarfundar fyrir alla félaga sem haldinn verður þriðjudaginn 16. apríl.
Petrea Jónsdóttir er nýr formaður kvennanefndar en eins og áður hefur komið fram eru formenn fastanefnda þeir Baldur Gunnarsson forgjafarnefnd, Haukur Óskarsson mótanefnd, Egill Jóhannsson aganefnd, Kristinn Ólafsson umhverfisnefnd og Einar Magnús Ólafsson vallarnefnd.
Framkvæmdir við völlinn. Eins og þeir fjölmörgu kylfingar sem nýtt hafa veðurblíðuna að undanförnu hafa orðið varir við eru hafnar framkvæmdir við endurnýjun 7. og 8. teigs. Ennfremur er hafinn undirbúningur að viðgerð á glompum á 8. braut. Ef viðunandi tilboð fást er stefnt að því að allir stígar vallarins verði orðnir malbikaðir áður en leikur hefst í vor.
Eins og sagt var frá í síðustu stjórnarfréttum er unnið að gerð tillagna um framkvæmdir við völlinn til næstu 5-10 ára. Þessari vinnu miðar vel og verður hún kynnt vel og vandlega þegar þar að kemur.
Afmælismál. Samþykkt var samhljóða tillaga að nýrri útfærslu merkis klúbbsins í tilefni afmælisársins. Um er að ræða talsverða breytingu þótt gamla góða merkið haldi sér reyndar að langmestu leyti. Mynd af merkinu verður sett hér inn á síðuna á allra næstu dögum en fyrsta birtingarmynd þess verður annars væntalega á pokamerkjunum og félagsskírteinunum okkar fyrir 2013 sem væntanlega munu berast okkur seinni hluta apríl mánaðar.
Netfangasöfnunin. Við eigum núorðið netföng vel á fimmta hundrað félaga. Ætlunin er að gera lokaatlögu að því sem eftir er að safna nú á næstunni. Eins og rætt hefur verið um léttir þessi samskiptamöguleiki starfið verulega og bætir samskipti og upplýsingagjöf.
Vinavellir. Gengið hefur verið frá samningi við vinavelli okkar og eru þeir hinir sömu og í fyrra: Borgarnes, Leira, Hella og Glanni við Bifröst. Við greiðum 1000 krónur fyrir hringinn á Hellu og Glanna en kr. 1.200 í Borgarnesi og í Leirunni.
Inntaka nýrra félaga. Um 15 félagar hafa hætt endanlega í klúbbnum frá síðasta aðalfundi og nokkrir til viðbótar tímabundið vegna náms og starfa erlendis. Það er því ráðrúm til þess að taka inn rúmlega 20 nýja félaga, sem þýðir að þeir sem nú fá boð um inngöngu sóttu um aðild vorið 2009. Eftir sem áður eru um 500 á biðlistanum og ljóst að mikil þörf er fyrir úrbætur með einhverjum hætti þannig að klúbburinn geti virkjað þann geysilega og sívaxandi áhuga sem er á golfi í samfélaginu.
Afreksstefna. Unnið er að mótun afreksstefnu fyrir klúbbinn. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að skýra og upplýsa um þann stuðning sem klúbburinn veitir framúrskarandi og framúrskarandi efnilegum kylfingum, tryggja gegnsæi og að allir sitji við sama borð. Þessari vinnu er ekki lokið en stefnan verður birt á nkgolf þegar þar að kemur.
Umhverfisvottunin. Eggert fyrrverandi formaður hefur góðfúslega tekið að sér að leiða vottunarferlið til enda, en það verður síðan í verkahring umhverfisnefndar hverju sinni að viðhalda vottuninni. Þessi vinna er mjög langt komin og vonast er til að vottunin fáist á næstu mánuðum. Við bindum vonir við að verða fyrsti golfklúbbur landsins til þess að hljóta umverfisvottun.
Endurbætur á skálanum. Arnar Friðriksson og Þorkell Helgason eiga þakkir skyldar sem oft áður. Nú sérstaklega fyrir að hafa eytt ófáum vinnustundum í að pússa upp og gera glansandi fína innviði skálans sem voru farnir að láta verulega á sjá. Innan skamms verður sú andlitslyfting svo fullkomnuð með nýjum gardínum.
Næsti stjórnarfundur verður haldinn fimmtudaginn 11. apríl. Athugasemdir, fyrirspurnir og tillögur má senda með tölvupósti á haukur@nkgolf.is og/eða olingi@nkgolf.is