Stórkostlegur hreinsunardagur að baki

Nesklúbburinn

Hreinsunardagur Nesklúbbsins var haldinn í dag þar sem félagsmenn klúbbsins mættu og tóku til hendinni við hin ýmsu störf.  Óhætt er að segja að dagurinn hafi tekist frábærlega.  Það voru rétt um 100 meðlimir sem mættu, báru á skálann, æfingaskýlið og bekki á vellinum og sinntu margs konar hreinsunarstörfum í og við skálann og á vellinum ásamt því sem hreinsað var rusl út úr nýrri inniaðstöðu klúbbsins við Eiðistorg.  Til að setja það vinnuframlag sem innt var af hendi í samhengi jafngildir það u.þ.b 5 vikna starfi fyrir einn mann – hreint magnað.  Þá létu veðurguðirnir sitt ekki eftir liggja og var sólskin og blíða fram eftir degi.

Í hádeginu var svo slegið upp pylsuveislu á pallinum og í framhaldinu haldið 9 holu texas-scramble mót þar sem þátttakendur voru 66 talsins.  Þar stóðu uppi sem sigurvegarar þau Rögnvaldur Dofri Pétursson og Sigríður Björk Guðmundsdóttir en þau léku á 32 höggum nettó.  Annars urðu helstu úrslit eftirfarandi:

1. sæti: Rögnvaldur Dofri og Sigríður Björk – 32 högg nettó
2. sæti: Oddur Óli Jónasson og Haukur Jónsson – 32 högg nettó
3. sæti: Hinrik Þráinsson og Steini Steina – 33 högg nettó 

Klúbburinn vill koma á framfæri innilegum þökkum fyrir það ómetanlega starf sem félagsmenn unnu í dag.

Myndir frá deginum má sjá hér á síðunni undir „myndir“ og á næstunni munu svo fleiri myndir verða settar inn á heimasíðu Nærmyndar, naermynd.is