Rástímataflan fyrir Meistaramótið hefur verið uppfærð og má sjá hana hér á síðunni undir „um NK“/“skjöl“ eða með því að smella hér.
Tvær breytingar voru gerðar frá áætluðum rástímum þar sem að 2. flokkur kvenna hefur leik kl. 12.00 á morgun, laugardag í staðinn fyrir kl. 9.10 eins og áætlað var. Á sunnudaginn mun 4. flokkur karla svo hefja leik kl. 8.40 í stað 12.00 eins og áætlað var. Báðar breytingar voru gerðar til að jafna út fjölda keppenda í fyrri og seinni ræsingu og þannig stytta leiktíma allra í mótinu þessa daga.
Miðað við skráningu í flokkanna og þ.a.l. niðurröðun á leikdaga er ljóst að leiktími sumra flokka verður einhverja daga lengri en eðlilegt þykir og kylfingar vilja. Mótsstjórn og dómarar mótsins munu ganga á eftir því að haldið verði uppi eins góðum leikhraða og hægt er. Þannig verða allir ráshópar ræstir út með m.a. þeirri tilsögn að „halda í við ráshópinn á undan“ og verður því fylgt eftir eins og þurfa þykir.
Það eru því vinsamleg tilmæli til allra þátttakenda að hafa það að leiðarljósi að halda í við næsta ráshóp og með völlinn í eins frábæru ásigkomulagi og hann er, að veðurguðirnir standi við gefin loforð og að þolinmæði og jákvæðni séu höfð með í golfpokanum má gera ráð fyrir stórskemmtilegu meistaramóti.
Góða skemmtun og gangi ykkur vel
Mótsstjórn