Vetrargolf á Nesvellinum er eingöngu fyrir félagsmenn

Nesklúbburinn

Í framhaldi af þeirri veðurblíðu sem leikið hefur við kylfinga undanfarna daga og vikur hefur álagið á Nesvellinum verið töluvert.  Völlurinn hefur verið nokkuð góður og leikið inn á sumarflatir sem verður að óbreyttu gert þar til frysta tekur.  Það breytir því þó ekki að völlurinn er ákaflega viðkvæmur á þessum árstíma.  Af þeim sökum hefur stjórn klúbbsins viðhaldið þeirri venju að takmarka álagið þannig að „eingöngu félagsmönnum er heimilt að leika völlinn„.  Það er þó því miður þannig að alltof mikið hefur sést til fólks spila á vellinum sem ekki er í klúbbnum og það sem verra er, oftar en ekki að leika með klúbbmeðlimum.

Það ætti hver einasti félagsmaður að sjá sóma sinn í því að bera hag vallarins fyrir brjósti og um leið virða þær reglur sem settar eru.  Það eru forsendur þess að hægt er að hafa völlinn opinn eins lengi og veður leyfir.  

Kæri félagsmaður, tökum nú höndum saman öll sömul og pössum upp á völlinn okkar svo við getum notið þess að spila áfram golf á vellinum í vetur við bestu mögulegu aðstæður.