Nú styttist heldur betur í formlega opnun hjá okkur úti á golfvelli og verður Hreinsunardagurinn haldinn hátíðlegur næstkomandi laugardag. Þá eru allir félagsmenn sem hafa tök á beðnir um að koma og leggja klúbbnum hjálparhönd með hin ýmsu verk bæði á og í kringum völlinn. Það verður allt auglýst nánar þegar nær dregur.
Í Risinu, inniaðstöðu klúbbsins á Eiðistorgi eru ennþá fjöldi golfsetta sem hafa verið í geymslu í vetur. Eigendur þeirra eru endilega beðnir um að sækja þau sem fyrst. Risið er opið á morgun, þriðjudag á milli kl. 13.00 og 18.00 og aðra daga vikunnar á milli kl. 13.00 og 14.00.
Veitingasalan og skálinn opnar svo frá og með næstu helgi, þangað til er hægt að nota félagsskírteinin til þess að komast inn á salernin í skálanum ef hann er lokaður. Skírteinin þarf að virkja fyrir aðgang á skrifstofunni.
Völlurinn kemur gríðarlega vel undan vetri og flatirnar eru með besta móti. Töluverð umferð hefur verið um völlinn undanfarna daga og viljum við minna á að völlurinn er ennþá viðkvæmur og því er mikilvægt að við hjálpumst að við að gera við boltaför á flötunum og setjum torfusnepla í kylfuförin.