Formannspistill

Nesklúbburinn

Kæru félagar,

Nú er sumarið handan við hornið og völlurinn okkar verður betri og betri með hverjum deginum.  Stjórn klúbbsins hittist í síðustu viku til þess að fara yfir stöðu mála nú þegar farið er að skýrast með hvaða hætti verður hægt verður að leika golf í sumar.  Til að byrja með má gera ráð fyrir ýmsum takmörkunum vegna samkomubannsreglna Almannavarna, en aðalatriðið er að við munum geta spilað golf og það eru gleðifréttir. 

Fyrir utan fjarlægðarmörk milli iðkenda er stærsta breytingin fyrir okkur að við munum taka upp rástímaskráningar á Nesvellinum. Þetta er gert til að koma í veg fyrir hópamyndanir á álagstímum og þannig munum við í það minnsta byrja sumarið þegar hægt verður að opna völlinn í maí.  Í ljósi allra aðstæðna sem í gangi hafa verið þykir okkur það vera ábyrgðarfullt að fara öllu með gát og sýnum það svona í verki.  Frekari útfærslur á því hvernig má spila golf í byrjun sumars eru til vinnslu hjá starfshópi á vegum GSÍ og munum við kynna þær leiðbeiningar (reglur) um leið og þær líta dagsins ljós.

Öll aðstaða á Nesvellinum verður að óbreyttu opnuð 4. maí og á það við um völlinn, æfingasvæðið og golfskálann.  Völlurinn kemur ágætlega undan vetri.  Flatir og teigar líta vel út en það verður að segjast eins og er að gríðarlegar frostlyftingar hafa átt sér stað á sumum brautum.  Vallarstarfsmenn vinna nú hörðum höndum alla daga við að valta þær og vonum við að þetta muni gefa góða raun núna á næstu dögum og vikum.  Fyrir þá sem vilja fylgjast með hvernig undirbúningi vallarins er háttað þessa dagana er um að gera að fara inn á síðuna okkar á Facebook en þar hefur Bjarni vallarstjóri hefur verið að setja inn bæði myndir og texta.

Mótaskráin verður með dálítið breyttu sniði.   Hreinsundardagurinn sem áætlaður var laugardaginn 2. maí verður væntanlega viku síðar eða  laugardaginn 9. maí.   Við munum tilkynna þetta nánar þegar að nær dregur og þá með hvaða hætti hann fer fram.  Önnur mót sem búið var að dagsetja gætum við þurft að færa aðeins til og verður það allt tilkynnt hér inni á heimasíðunni okkar á næstu dögum. 

Fjölmargir félagar hafa nú þegar skráð sig inn á hið nýja tölvukerfi Golfbox. Við hvetjum þá sem ekki hafa skráð sig inn að gera það þar sem rástímaskráningar munu fara þar fram, bæði hjá okkur í Nesklúbbnum og á öðrum golfvöllum landsins .  Sama gildir um skráningar í mót og utanumhald á forgjöfinni.  Allar leiðbeiningar fyrir innskráningu má finna með því að smella hér.  Við hvetjum einnig alla til þess að hlaða niður smáforritinu Golfbox í símanum, það er einfalt í notkun og þar er hægt að framkvæma flestar aðgerðir. 

Pokamerkin verða send út í kringum mánaðarmótin og eru þeir sem hafa skipt um heimilisfang beðnir um að tilkynna nýtt heimilisfang á netfangið: nkgolf@nkgolf.

Við erum bjartsýn að sumarið í sumar verði frábært golfsumar.  Það verður sameiginleg vinna okkar allra að láta hlutina ganga sem best er kemur að því að fylgja öllum settum reglum þríeykisins okkar góða.  Reglur munu vafalaust taka einhverjum breytingum í sumar og munum við upplýsa okkar félaga þegar það gerist.  Ég hef engar áhyggjur af því, enda er samstaðan í klúbbnum okkar mikil. 

Gleðilegt golfsumar,

Kristinn formaður