Fyrsta mót sumarsins á Nesvellinum var haldið í gær. Mótið var haldið til fjáröflunar á hjartastuðtæki sem klúbburinn hyggst kaupa á næstu dögum. Ágætis þátttaka var í mótinu en sextíu og þrír kylfingar hófu leik og þar af skiluðu 53 korti að leik loknum. Auk þess komu margir félagsmenn og lögðu málefninu lið með fjárframlagi. Leikin var 9 holu punktakeppni og var kylfingum heimilt að fara fleiri en einn hring og taldi þá besti hringur hvers leikmanns. Kylfingar klúbbsins virðast koma vel undan vetri og náðu margir þeirra mjög góðum árangri. Steinn Baugur Gunnarsson bar sigur úr býtum en hann lék völlinn á fjórum höggum undir pari vallarins og fékk fyrir það 23 punkta en hann fékk m.a. 5 fugla á hringnum sem er frábær árangur. Rúnar Geir Gunnarsson lék einnig á 32 höggum og fékk 22 punkta. Staða efstu manna var annars eftirfarandi:
1. Steinn Baugur Gunnarsson – 23 punktar
2. Rúnar Geir Gunnarsson – 22 punktar
3. Oddur Óli Jónasson – 21 punktur
4. Hannes Sigurðsson – 21 punktur
Önnur úrslit má sjá hér.