Ég vil byrja á að óska ykkur öllum gleðilegs árs og þakka fyrir þau gömlu.
Haustið og það sem af er vetri var viðburðaríkt hjá mér í Ameríku. Ég spilaði í 7 stórum mótum og notaði einnig tímann vel til þess að afla mér frekari þekkingar í heimi golfkennslunnar. Mér er ofarlega í huga þakklæti til þeirra sem mættu í styrktarmótið mitt síðastliðið sumar og allra sem hjálpuðu til við að gera mér það mögulegt að reyna mig á þessum vettvangi.
Hér á eftir fer stutt ferðasaga.
28. september lenti ég í Orlando og hélt rakleiðis ásamt fjölskyldunni til smábæjarins Dunedin á vesturströnd Flórídaskagans, ekki langt frá Tampa. Fyrstu þrjár vikurnar fóru í stífar æfingar og spil með það að markmiði að venjast Bermúdagrasinu og komast í leikæfingu eftir kennsluvertíðina hér heima.
Þann 23. október var svo komið að fyrsta mótinu á NGA mótaröðinni. Mótið fór fram á Metro West vellinum en þaðan átti ég mjög góðar minningar eftir að hafa sigrað á OGA mótaröðinni í desember 2011 og leikið á 3 höggum undir pari. Völlurinn sem er hannaður af Robert Trent Jones Sr. er 7.051 stikur og hefur verið valinn besti golfvöllurinn í Orlando, þótt hann hafi nú nokkuð aðeins gefið eftir hvað umhirðu varðar.
Það er skemmst frá því að segja að fyrri hringur mótsins var einfaldlega arfaslakur af minni hálfu og sá lélegasti í nokkur ár. Spennustigið hefur greinilega verið of hátt þótt mér hafi ekki endilega liðið þannig. Á þessum hring lék ég með kylfingi að nafni Major Manning sem að eitt sinn var á meðal efnilegustu kylfinga Bandaríkjanna en hefur ekki náð að komast þangað sem reiknað var með. Skorið, 83 högg!! Eftir þann hring var ljóst að ég myndi ekki komast áfram og reyndar var ég í neðsta sæti þeirra sem kláruðu hringinn. Ekki kannski alveg sú byrjun sem ég vonaðist eftir og bjóst við, ekki síst vegna þess að ég hafði sigrað mót á þessum velli árinu áður.
Nú var bara að hysja upp um sig brækurnar og það náði ég að gera daginn eftir með því að leika á pari eða 72 höggum. Ég endaði í 66. sæti af 79 keppendum og náði aðeins að hressa við sjálfstraustið sem hafði laskast deginum áður. Þegar upp var staðið var ég 9 höggum frá því að komast í gegnum niðurskurðinn og fá útborgað. Seinni hringurinn sýndi mér að ég gat gert góða hluti á þessum vettvangi en þá var ég með 18. besta skor dagsins.
Næst á dagskrá var ráðstefna Plane Truth golfkennara í Phoenix Arizona. Þessar ráðstefnur eru alveg gríðarlega skemmtilegar og gagnlegar og þessi var engin undantekning. Með í för voru Steinn Baugur Gunnarsson og Oddur Óli Jónasson sem náði sér í kennsluréttindi hjá samtökunum með því að sitja námskeið og þreyta próf, en ráðstefnan er eingöngu opin þeim sem hafa kennsluréttindi frá samtökunum. Það er frábært að innan Nesklúbbsins séu 3 aðilar sem hafa öðlast bestu upplýsingar sem í boði eru varðandi golfkennslu. Þarna gafst mér tækifæri til þess að vinna með mínum kennara, Chris O´Connell, að mínum leik og árangurinn átti ekki eftir að láta á sér standa í næsta móti.
Næsta mót var The Davenport Classic, á Florida Professional Golf Tour, sem fram fór á Ridgewood Lakes vellinum í Davenport í Flórída. Þennan völl þekki ég ágætlega og hef leikið nokkuð oft á honum í gegnum árin. Hann er 7.016 stikur að lengd og hefur verið verðlaunaður sem besti nýi golfvöllurinn á Orlandosvæðinu. Aðstæður í þessu móti voru nokkuð erfiðar, frekar kalt og þriggja kylfu vindur.
Það er mín tilfinning að þetta hafi verið mitt besta mót á ferlinum. Hringir upp á 71 og 70 eða 3 högg undir pari samtals, skiluðu mér í 7. sæti af 73 þáttakendum og fékk ég samtals um 100.000.- kr. í verðlaunafé. Ég var mjög sáttur að mótinu loknu en þegar frá leið fór að bera á smá svekkelsi enda hafði ég verið mjög nálægt því að blanda mér alvarlega í baráttuna um sigurinn. Það munaði að lokum 4 höggum á mér og Jim Chancey sigurvegara mótsins og þau högg var mjög auðvelt að finna en ég hafði fengið klaufalega skollla á 16. og 18. braut báða dagana.
Arlington Ridge golfvöllurinn var vettvangur næsta móts, Leesburg Open. Þetta er völlur sem er hannaður af Arnold Palmer og er 6.633 stikur að lengd og nokkuð þægilegur miðað við marga aðra velli á mótaröðinni, sérstaklega hvað teighöggin varðar er hann nokkuð opinn.
Ég lék þetta mót á 73 og 71 höggum eða 2 höggum yfir pari og brugðust púttin mér algjörlega seinni daginn. Þetta skor skilaði mér í 22. sæti og verðlaunafé upp á um 86.000.- kr.
Mót númer fjögur var svo Riviera Open á Ormond Beach en þetta mót er mjög sögufrægt og er uppselt í það á hverju ári. Margir frægir kylfingar taka þátt í þessu móti sem fer fram á mjög sérstökum velli sem eingöngu spilaðist um 6.400 stikur í mótinu. Erfiðleikar vallarins felast helst í því að hann er þröngur með upphækkuðum flötum og Bermúdagrasið er mjög stíft bæði á flötum og brautum. Þar sem völlurinn er stuttur þá er það nánast óhjákvæmileg að eiga oft eftir stutt innáhögg og þau geta reynst fjandanum erfiðari á þessari grastegund.
Ég spilaði á 77 og 71 höggum eða samtals 6 höggum yfir pari. Þetta var frekar slök frammistaða og má segja að ég hafi verið kominn í hálfgerða púttkrísu eftir þetta mót.
Næsta mót var haldið á Eagle Dunes vellinum í Sorrento í Flórída. Þessi völlur er 7.041 stikur og hefur að geyma nokkrar erfiðar brautir en er að öðru leyti nokkuð þægilegur.
Fyrri daginn lék ég á 74 höggum eftir að hafa slegið boltann eins og ég best geri. Hitti 16 flatir en púttkrísan var að ná hámarki og þegar þarna var komið við sögu var ég farinn að skjálfa yfir 30 sentimetra púttum. Seinni daginn gafst ég nánast upp og endaði á 79 höggum. Fjöldi pútta fór algjörlega með þetta mót en ég notaði 36 fyrri daginn og 39 seinni daginn sem er mjög langt frá því að vera ásættanlegt. Svekkjandi þar sem ég var að slá eins og ég best get en þegar líða fór á seinni hringinn var eins og slátturinn færi að líða fyrir púttin.
Eastwood Golf Club var næsti viðkomustaður og þar átti ég nokkuð gott mót. Þessi völlur er erfiður og spilast 7.141 stikur og inniheldur nokkrar svínslega erfiðar holur.
Ég var að spila mjög þétt á þessum tíma og var orðinn nokkuð þreyttur á ferðalögunum þannig að ég tók þá ákvörðun að leika ekki æfingahring heldur hvílast frekar í mínu rúmi nóttina fyrir mótið. Ég lék fyrri hringinn á 74 höggum en það var í fyrsta skipti sem ég lék völlinn og þann síðari á 72 og endaði því samtals á 2 höggum yfir pari og í 19. sæti og verð ég að segja að það kom mér á óvart að enda ekki ofar miðað við spilamennskuna. En þetta mót var ég ánægður með í heildina, það kostaði mig reyndar 2 högg fyrri daginn að hafa ekki spilað æfingahring en ég held samt að á þeim tímapunkti hafi verið rétt ákvörðun að sleppa honum.
Síðasta mótið var svo leikið í Daytona Beach á Peliccan Bay vellinum. Skemmtilegur völlur sem refsar slæmum höggum og veitir verðlaun fyrir þau góðu. Ég fann mig ekki nægilega vel og lék á 78 og 73 höggum eða samtals 7 höggum yfir pari sem skilaði mér í 34. sæti sem dugði ekki til að fá útborgað.
Heilt yfir ætlaði ég mér stærri hluti en þó er kannski engin ástæða til þess að vera ósáttur. Ég átti frábært mót, nokkur ágæt og svo önnur sem voru ekki svo góð. Svo verður að taka það með í reikninginn að þarna var ég að etja kappi við menn sem gera ekkert annað en að spila golf allan ársins hring. Meðalskorið hjá mér var 73,58 högg. Eftir á að hyggja hef ég sennilega æft og spilað of mikið þennan tíma, mig langaði of mikið og frídagana vantaði.
Sjáumst sem fyrst á æfingum og í kennslu.