Gleðilegt nýtt golfár!
Um miðjan desember kom nýkjörin stjórn klúbbsins saman til fyrsta stjórnarfundar nýs starfsárs. Ákveðið var að verkaskipting meðal stjórnarmanna yrði óbreytt frá síðasta ári og er Áslaug því varaformaður, Geirarður gjaldkeri, Þorvaldur ritari, Arnar meðstjórnandi og Guðrún og Jónas varamenn. Nýr formaður er Ólafur Ingi.
Vegna þess að nýr vallarstjóri, Haukur Jónsson er kominn til starfa var ákveðið að skipa strax í vallarnefnd, en fresta annarri nefndaskipan þar til eftir áramót. Nýr formaður vallarnefndar er Einar Magnús Ólafsson, en aðrir í nefndinni eru Arnar Friðriksson, Jón Ingvar Jónasson og Rúnar Geir Gunnarsson.
Ákveðið var að gera átak í því að safna netföngum klúbbfélaga til þess að geta aukið upplýsingaflæði og gagnkvæm samskipti milli stjórnar, nefnda og félaga. Fólk má því eiga von á hringingu á næstu vikum frá einhverjum á vegum klúbbsins og eru félagsmenn beðnir um að bregðast vel við þeirri truflun.
Fjölmargt var rætt á þessum fyrsta fundi nýs starfsárs. Meðal annars íbúaþing um umhverfis- og útivistarmál sem haldið verður hér á Seltjarnarnesi 17. janúar, en mikilvægt er að sjónarmið klúbbsins komist þar skýrt og vel á framfæri.
Einnig var ákveðið að hefja undirbúning og umræðu um með hvaða hætti flýta megi leik á vellinum okkar. Stjórnin telur afar brýnt að góð og mikil samstaða skapist um þetta mikilvæga mál meðal allra félagsmanna. Hugmyndir og skoðanir ykkar á málinu eru mjög vel þegnar og má gjarnan senda á netföngin haukur@nkgolf.is og olingi@nkgolf.is
Eins og fram kom á aðalfundi klúbbsins í nóvember hafa bæjaryfirvöld Seltjarnarness veitt klúbbnum aðstöðu til inniæfinga í Lækningaminjasafnshúsinu í vetur. Aðstaðan verður opnuð 14. janúar og verða upplýsingar um æfinga- og opnunartíma hússins birtar hér á síðunni um miðja næstu viku.
Næsti stjórnafundur hefur verið settur á miðvikudaginn 9. janúar.
Stjórn og framkvæmdastjóri óska félögum farsæls komandi golfárs!