Vonsku veður um helgina

Nesklúbburinn Almennt, Póstlistar allir

Kæru félagar,

Móðir náttúra bankaði hressilega upp á völlinn okkar um helgina. Brjálað veður og mikil sjóhæð hentu sjó, möl, grjóti og öðru lauslegu yfir völlinn, og eru holur 1, 2, 3 og 7 verst farnar eftir óveðrið.

Stuart vallarstjóri hefur farið yfir ástandið og vonar að skemmdirnar séu ekki það miklar að þær muni hafa áhrif til lengri tíma. Hins vegar er ljóst að fram undan er heilmikil vinna við að laga og hreinsa völlinn. Eins og staðan er núna er jarðvegurinn mjög blautur og því talið best að bíða í nokkra daga með hreinsun, þar til völlurinn hefur þornað nægilega og mesta vatnið hefur náð að setjast. Þetta mun minnka hættuna á frekari skemmdum.

Næstu daga viljum við biðja ykkur um að reyna ekki að spila völlinn þar sem hann er í mjög viðkvæmu ástandi. Þegar kemur að því að hreinsa og laga til þurfum við góða liðsheild og sameiginlegt átak félagsmanna til að taka til hendinni og gera völlinn okkar fínan fyrir sumarið. Við komum til með að láta ykkur vita fljótlega hvernig sú framkvæmd verður.

Golfkveðja,

Guðmundur Páls