Gleðilegt sumar kæru félagar,
Það er vonandi að dagurinn í dag sé undanfari þess sem koma skal – sólríkur dagur á Nesvellinum þar sem hitastigið fór í 14 gráður og margir sem nutu veðurblíðunnar.
Opnun vallarins og veitingasölunnar verður að öllu óbreyttu laugardaginn 3. maí þegar Hreinsunardagurinn verður haldinn. Dagurinn markar eins og alltaf upphafið af nýju golftímabili hjá félagsmönnum og eru að sjálfsögðu allir hvattir til að taka daginn frá. Við auglýsum Hreinsunardaginn betur þegar nær dregur.
Völlurinn: Stuart, nýji vallarstjórinn okkar, hefur staðið í ströngu við að koma vellinum í eins gott stand og mögulegt er eftir hamfarir vetrarins. Það hefur svo sannarlega ekki gengið áfallalaust fyrir sig af mörgum ástæðum en engu að síður stefnum við að því að opna aðra helgi eins og áður sagði.
Þá ber að geta þess að eitt af fyrstu verkum Stuarts eftir að hann tók til starfa var að setja Hafstein í útlitsbreytingu. Hafsteinn er án nokkurs vafa umtalaðasta glompa vallarins, sem staðsett er við 9. flöt og má gera ráð fyrir því að þessi breyting á Hafsteini greyinu sé flestum, ef ekki öllum, fagnaðarefni. (Sjá meðfylgjandi myndir sem teknar voru bæði fyrir og eftir fegrunaraðgerðina).
Við viljum minna þá félagsmenn sem eru að leika völlinn þessa dagana á að færa kúluna alltaf út í brautarkantinn og slá þaðan, leika aldrei af teigum og alls ekki inn á flatir. Þetta skiptir gríðarlegu máli á þessum árstíma og getur skipt sköpum hvað varðar gæði vallarins í sumar.
Pokamerki: Sú ákvörðun var tekin í vetur að hætta framleiðslu pokamerkjanna í ljósi þess að þau þjóna orðið engum sérlegum tilgangi lengur. Teljum við þannig þeim fjármunum sem í þau var eytt betur varið í annan rekstur félagsins.
Rástímabókanir: Það hefur margoft verið sagt að hver rástími á Nesvellinum er dýrmætur. Eins og áður hefur komið fram verða nýjar reglur teknar í gildi í sumar fyrir rástímabókanir á Nesvellinum. Reynsla þeirra sem hafa notað þetta fyrirkomulag er mjög góð og er það ástæða þess að fleiri klúbbar á höfuðborgarsvæðinu eru að fara sömu leið og þar á meðal við. Með nýju fyrirkomulagi hefur meðal annars verið sýnt fram á að fólk afbóki sig sjaldnar og kannski það sem mikilvægara er að það eru mun færri sem mæta ekki á bókaðan rástíma. Einnig hefur þetta minnkað hamstur rástíma og aukið skilvirkni.
Við gerum okkur að sjálfsögðu fyllilega grein fyrir því að allar breytingar orka tvímælis og eðlilega hafa allir skoðanir á breytingum sem þessum. Engu að síður teljum við að það sé þess virði að láta á það reyna sem annarsstaðar hefur gefist betur en það sem við erum að nota. Við þurfum að sjálfsögðu á því að halda að félagsmenn setjist í sama bát og bæði fylgi þessum nýju reglum og gefi þeim tækifæri.
Til þess að allt gangi eins vel fyrir sig og hugsast getur verður sett ítarleg kynning á þessu fyrirkomulagi hér á heimasíðuna og sent út á póstlistann áður en opnað verður fyrir rástímabókanir í næstu viku . Eins verða reglurnar ávallt aðgengilegar á heimasíðunni okkar, nkgolf.is
Ég vil að lokum óska ykkur skemmtilegs golfsumars og vonandi eigum við öll eftir að njóta alls hins besta sem Nesið okkar góða hefur upp á að bjóða.
Með golfkveðju,
Haukur Óskarsson
Framkvæmdastjóri