Aðalfundur Golfklúbbs Ness – Nesklúbbsins 2024 haldinn á dögunum

Nesklúbburinn Almennt, Póstlistar allir

Aðalfundur Golfklúbbs Ness – Nesklúbbsins var haldinn í Hátíðarsal Gróttu síðastliðinn fimmtudag, þann 28. nóvember og var vel sóttur af félagsmönnum.

Helstu dagskrárliðir voru þeir að Þorsteinn Guðjónsson formaður klúbbsins gerði grein fyrir skýrslu stjórnar og þá gerði Haukur Óskarsson framkvæmdastjóri grein fyrir reikningum í fjarveru Guðrúnar Valdimarsdóttur, gjaldkera.  Reikningarnir voru svo lagðir fram til atkvæðagreiðslu af fundarstjóra og voru þeir samþykktir.

Helstu tölur úr rekstri klúbbsins voru að rekstrartekjur voru um 179 milljónir og rekstrargjöld tæplega 170 milljónir.  Eftir framkvæmdir og fjárfestingar var hagnaður á starfsemi klúbbsins fyrir rekstrarárið 2024 um rúmlega tvær milljónir.  Nánar má sjá ársskýrslu og reikninga félagsins með því að smella hér

Samkvæmt 9. grein í lögum félagsins skal á aðalfundi kosið um þrjá stjórnarmenn til tveggja ára.  Fyrir þennan aðalfund bárust til kjörnefndar fimm framboð innan tilskyldra tímamarka skv .lögum félagsins. Voru því framkvæmdar kosningar skv. 8. lið, 15. greinar í lögum félagsins.  Svo fór að lokum að þau Árni Vilhjálmsson, Jóhann Karl Þórisson og Þórkatla Aðalsteinsdóttir hlutu flest atkvæði og þau því réttkjörin til stjórnarsetu til næstu tveggja ára.   Þá gaf Þorsteinn Guðjónsson áfram kost á sér til embættis formanns.  Ekki bárust fleiri framboð og Þorsteinn því réttkjörinn formaður Nesklúbbsins næsta starfsár.  Stjórn Golfklúbbs Ness – Nesklúbbsins fyrir rekstrarárið 2025 verður því þannig skipuð.  Þorsteinn Guðjónsson, formaður og aðrir í stjórn í stafrófsröð: Árni Vilhjálmsson, Ásgeir Bjarnason, Elsa Nielsen, Guðrún Valdimarsdóttir, Jóhann Karl Þórisson og Þórkatla Aðalsteinsdóttir.

Í aðdraganda fundarins voru fundargögn, sbr. ársskýrslu og reikningar, birtir á heimasíðu félagsins og þau send út á póstlista.  Samhliða þeim gögnum var lögð fram tillaga um stofnun framkvæmdasjóðs og lá sú tillaga fyrir fundinum.  Við afgreiðslu tillögunar bar Árni Vilhjálmsson, ritari stjórnar tillöguna formlega upp fyrir fundinn og sköpuðust skemmtilegar umræður um hana í framhaldinu.  Tillöguna í heild sinni má sjá með því að smella hér.  Tillagan var svo að endingu borin upp af fundarstjóra til atkvæðagreiðslu og var hún samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða.

Á fundinum voru ákveðin félagsgjöld fyrir árið 2025 um 10% hækkun að meðaltali sem tóku mið af fyrirliggjandi fjárhagsáætlun stjórnar ásamt hækkun á GSÍ félagsgjaldinu.  Fundarstjóri bar tillöguna upp og var hún einnig samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða.  Félagsgjöld og sundurliðun þeirra fyrir árið 2025 má sjá með því að smella hér: