Flýtum leik ágætu félagar

Nesklúbburinn

Þrátt fyrir verulega vont veður á þjóðhátiðarmótinu síðdegis í gær tók 18 holu hringur aðeins 4 klst. og 10 mínútur.

Þetta leiðir auðvitað hugann að því hvernig hægt er að ná upp svo góðum leikhraða, þrátt fyrir slæmar aðstæður, fullan völl og að verið var að leika bæði höggleik og punktakeppni.

Flestum ber saman um að 10 mínútur á milli rástíma sé það sem gerir gæfumuninn. Nýtt skorkort er nú í prentun og þar eru þessi atriði einmitt birt okkur öllum til áminningar:

  1. Farið eftir klukkunni við 1. teig; aldrei örar út en á 10 mínútna fresti
  2. Undirbúið næsta högg ykkar meðan meðspilari leikur sínum bolta
  3. Verið alltaf tilbúin að leika strax þegar röðin kemur að ykkur
  4. Myndið alltaf 4 manna ráshópa á álagstímum
  5. Haldið eðlilega í við ráshópinn á undan ykkur
  6. Takið varabolta ef líkur eru á að sá fyrri gæti verið týndur
  7. Leitið ekki að týndum boltum sem fara út fyrir vallarmörk (hvítir hælar)
  8. Leitið ekki lengur en 5 mínútur að týndum bolta innan vallar
  9. Hikið ekki við að taka bolta upp ef holan er orðin punktlaus og þið hugsanlega farin að tefja leik
  10. Sýnið öðrum leikmönnum tillitssemi og tefjið ekki leik þeirra með truflun
  11. Skiljið golfpokann alltaf eftir þeim megin við flöt sem gengið er út af henni í átt að næsta teig

Tökum okkur tak, flýtum leik og gerum golfið þar með skemmtilegra og fleirum mögulegt að spila völlinn.