Formannspistill

Nesklúbburinn Almennt, Póstlistar allir

Formannspistill 27. desember 2024

Kæru félagar,

Jólahátíðin hefur þegar gengið í garð og vil ég óska ykkur gleðilegra jóla og vona að þið séuð búin að hafa það gott. Á næsta leiti eru svo áramót, en þá er góður siður að líta aðeins um öxl og meta stöðuna. Þetta er búið að vera prýðis ár á margan hátt, barna- og unglingastarfið heldur áfram að vaxa og nú erum við byrjuð að uppskera árangur, í raun betri en nokkurn hefði getað látið sig dreyma um. Við eignuðumst Íslandsmeistara og frábær árangur náðist hjá mörgum einstaklingum og sveitum. Mikilvægt er að við höldum góðum fókus þarna þannig að við höldum þessum efnilegu kylfingum við efnið. Árið mun nú líklega ekki fara í sögubækurnar fyrir blíðviðri, samt sem áður var nýting vallarins í sumar í takt við undan farin ár. Þetta var afmælisár og voru nokkrar uppákomur til hátíðabrigða, til að mynda héldum við í fyrsta skipti Íslandsmót á vellinum, haldið var afmælismót og sett var upp tímalína í skálanum, en það er mikilvægt að við höldum vel utan um sögu klúbbsins. 

Í lok nóvember s.l. var haldinn aðalfundur klúbbsins og var þar farið yfir árið í skýrslu stjórnar, en hana má finna í ársskýrslunni ásamt rekstrartölum sem voru vel við unandi. Góðar umræður sköpuðust á fundinum, en m.a. var samþykkt að hver félagsmaður greiði samhliða árgjöldum, 20.000 kr. í framkvæmdasjóð. Er sú ákvörðun bara til eins árs í senn. Það er ljóst að ef við ætlum að láta nýjan par 3 holu golfvöll og aðrar framþróanir á vellinum verða að veruleika, þá þurfum við að vera í stakk búin að greiða okkar hlut í þeim framkvæmdum. Ég vil samt ítreka það að ekki verður farið í neinar stórar framkvæmdir nema að undangenginni kynningu og samráði við félagsmenn. Eins og fram hefur komið, er stækkun bílastæðisins fyrst á dagskrá. Það mál hefur þokast áfram og eigum við okkur þann draum að erindið verði samþykkt úr umhverfisnefnd bæjarins á næstu vikum og svo bæjarstjórn í framhaldinu þannig að hægt verði að fara í þær framkvæmdir fyrir næsta sumar.

Á dögunum hélt stjórnin fund og á honum var skipað í embætti og skipað í nefndir næsta árs. Allar upplýsingar um þetta er að finna á heimasíðu klúbbsins hér. Á næstu vikum mun stjórn, nefndir og starfsmenn klúbbsins setja saman markmið og verkefnaplan í takt við fjárhagsáætlunina sem samþykkt var á aðalfundinum. Þessi hópur er einhuga um að efla klúbbinn okkar og halda vel utan um þá góðu umgjörð sem skapast hefur í gegn um tíðina, en ljóst er að það mun aldrei takast nema í góðu samstarfi við alla félagsmenn. Ef þið hafið eitthvað sem þið viljið koma á framfæri við stjórn þá er með netfangið stjorn@nkgolf.is og svo er auðvitað líka hægt að taka spjallið. 

Ég læt staðar numið hér og vil nota tækifærið og þakka ykkur fyrir ánægjulegt samstarf á árinu sem er að líða og hlakka til þess að takast á við nýtt ár með ykkur. 

Gleðilegt nýtt ár!

Golfkveðja,
Þorsteinn Guðjónsson

Formaður