Kæru félagar í Nesklúbbnum,
Ég vil byrja á að þakka ykkur öllum sem tókuð þátt í hreinsunarstörfum á vellinum okkar á Suðurnesi eftir náttúrhamfarirnar í byrjun mánaðarins. Það er virkilega ánægjulegt að sjá þessa miklu samstöðu félaganna sem vakið hefur athygli langt út fyrir landhelgina og sýnir enn og aftur að Nesklúbburinn er miklu meira en bara hefðbundinn golfklúbbur. Það mættu í kringum 100 félagar í hvort skipti til rúmlega tveggja tíma hreinsunarstarfa 8. og 16. mars s.l. og skiluðu þannig rúmlega 400 vinnustundum við hreinsun á flötum, teigum og brautum þar sem ekki var hægt að koma vinnuvélum að.
Á sama tíma eru það mikil vonbrigði að þurfa að deila því með ykkur að umhverfisnefnd Seltjarnarnesbæjar er enn og aftur að leggja ómálefnalega steina í götu okkar. Á síðasta fundi nefndarinnar, 17. mars sl. fjallaði nefndin um tvö erindi sem lágu fyrir frá stjórn Nesklúbbsins. Fyrra erindið snérist um ítrekaða fyrirspurn um leyfi til að hefja framkvæmdir við stækkun bílastæðisins. Erindið hafði áður verið tekið fyrir hjá nefndinni og í framhaldinu höfum við uppfyllt öll þau skilyrði sem nefndin setti fram við afgreiðslu málsins á þeim tíma. Skemmst er frá því að segja að erindið hlaut heldur ekki endanlega afgreiðslu að þessu sinni og finnst okkar að verið sé að draga okkur á asnaeyrunum með röklausum útskýringum og fordæmalausum kröfum. Hitt erindið snérist um leyfi til að setja upp hið margumtalaða salerni á 5. braut sem staðið hefur til í langan tíma eins og fram hefur komið í fyrri pistlum mínum. Það mál hlaut heldur ekki afgreiðslu. Nú ætlar umhverfisnefndin að leggja bæði málin til umfjöllunar hjá Náttúrverndarstofnun Íslands. Nú eru tæp 3 ár síðan við fyrst sendum inn erindi til bæjarins varðandi breytingar á vellinum og betri nýtingu á svæðinu í þeirri viðleitni að gera völlinn öruggari og hins vegar að geta tekið fleiri félaga inn í klúbbinn til að mæta þeirri miklu áskorun sem rúmlega 1400 manna biðlisti eftir inngöngu í klúbbinn er. Þrátt fyrir ítrekanir og mörg samtöl hefur því miður hvorki gengið né rekið í okkar málum og það verður því miður að segjast eins og er að okkar upplifun er sú að Nesklúbbnum sé sýnt áhuga- og virðingarleysi, sérstaklega í þeim málefnum sem snúa að endurbótum á golfvellinum. Líklega má fullyrða að hjá okkur í Nesklúbbnum sé starfrækt fjölmennasta frístundastarfið á Seltjarnarnesi. Um leið nýtur náttúran og fuglalífið sín hvergi betur og almenningur nýtir jafnframt þetta svæði til útivistar allt árið.
Staðan á vellinum er sú þegar þetta er skrifað að nú er starfsmaður á vegum bæjarins að laga stíginn og varnargarðinn í kringum völlinn, en mikið efni af stígnum barst niður á nokkrar brautir vallarins. Þannig að á sama tíma er verið að hreinsa upp þetta efni af vellinum á 2. og 7. braut. Við reiknum með að þessi vinna muni taka um tvær vikur í viðbót. Á næstu tveim vikum skýrist það betur hversu mikil vinna verður eftir fyrir okkur til að koma vellinum í lag fyrir sumarið. Við reiknum með að við þurfum að kalla á ykkur félagsmenn einu sinni enn til áður en kemur að hinum hefðbundna hreinsunardegi í byrjun maí. Við munum senda út tilkynningu um leið og það liggur fyrir.
Að lokum vil ég minnast á það að líkt og aðrir golfklúbbar á höfuðborgarsvæðinu áformum við að kynna nýjar reglur varðandi bókun rástíma í sumar. Markmið breytinganna er að auka skilvirkni og gæði rástímabókanna þannig að sem flestir eigi möguleika á því að fá rástíma þegar þeir vilja spila golf. Um leið hefur reynsla annarra klúbba sem tekið hafa upp þessar reglur sýnt fram á að það er töluvert minna um að fólk annaðhvort afbóki rástíma sína eða láti ekki sjá sig á áður bókuðum rástíma. Við munum að sjálfsögðu kynna þetta nánar áður en tímabilið hefst.
Enn og aftur takk fyrir samstöðuna. Ég hef fulla trú á því að með því að taka áfram höndum saman náum við að ljúka þessu hreinsunarverkefni í tæka tíð og völlurinn okkar verði klár um leið og veðurguðirnir og Stuart vallarstjóri gefa grænt ljós.
Með golfkveðju,
Þorsteinn Guðjónsson
Formaður