Formannspistill 13. apríl 2022

Nesklúbburinn Almennt, Póstlistar allir

Kæru félagar,

Nú er sumarið á næsta leiti og það þýðir að félagsmenn fara að velta því fyrir sér, hvenær opnar inn á sumarflatirnar? Völlurinn lítur út fyrir að koma vel undan vetri þó svo að við verðum auðvitað að vona að veðrið spili með okkur næstu daga og vikur til að koma vellinum í sumarhaminn.  Við ítrekum að völlurinn er gríðarlega viðkvæmur þessa dagana og að þeir félagsmenn sem nýta sér góðviðrisdaga til að leika völlinn virði þær vetrarreglur sem í viðgangast og sjá má á skilti á 1. teig.  Æfingasvæðið mun einnig opna við fyrsta tækifæri en þangað til minnum við að sjálfsögðu alla á frábæru inniæfingaaðstöðuna okkar, Nesvelli sem fengið hefur frábærar viðtökur.  Sjá má nánar um opnunartíma og aðrar upplýsingar á Nesvöllum inni á heimasíðu klúbbsins.

Eitt af reglulegum vorverkum stjórnar er inntaka nýrra félaga í klúbbinn. Í ár ganga 39 nýir meðlimir í klúbbinn og vil ég bjóða þá hjartanlega velkomna í NK fjölskylduna. Að auki munum við bjóða 100 einstaklingum fjaraðild að klúbbnum. Tilraunin með fjaraðild heppnaðist mjög vel í fyrra, en einstaklingum á biðlista klúbbsins er boðin fjaraðild. Með fjaraðild hafa einstaklingar aðgang að rástímabókunum á öllum völlum, en bókunarfyrirvarinn á Nesvellinum er sólarhringur. Einnig veitir fjaraðildin aðgang að öllum innanfélagsmótum klúbbsins að undanskildu meistaramótinu sem og aðgang að vinavöllum klúbbsins.  Þess má geta að biðlistinn í klúbbinn er nú orðinn fjölmennari en félagsmenn í klúbbnum og ljóst að biðin eftir félagsaðild lengist með hverju árinu og viljum við því með þessu móti koma til móts við þá sem bíða eftir félasaðild með þessum takmarkaða hætti án þess að það eigi að hafa áhrif á hinn almenna félagsmann.

Stjórnin hefur komið reglulega saman  í vetur og hefur haft í mörg horn að líta. Það sem er efst á baugi eru breytingar á vellinum með það fyrir augum að gera hann öruggari fyrir iðkendur og á sama tíma bæta gæði og flæði vallarins. Stjórn NK samþykkti breytingatillögu vallarnefndar fyrr í mánuðinum og mun hún verða kynnt á sérstökum kynningarfundi fyrir félagsmenn í lok mánaðarins. Mikil vinna liggur að baki þessarar tillögu og höfum við fengið vana fagmenn í að okkar mati hæsta gæðaflokki í verkið.  Eins og áður hefur komið fram samdi klúbburinn við fyrirtækið Mckenzie & Ebert um að koma með tillögur að verkinu sem eins og áður segir gengur fyrst og fremst út á það að fækka slysahættum á Nesvellinum en um leið að halda stefnu okkar um að geta boðið upp á besta 9 holu golfvöll landsins.

Bjarni vallarstóri hefur haft veg og vanda í samskiptum við Mackenzie og getað þar einnig miðlað sinni reynslu og þekkingu á uppbyggingu golfvalla sem er mikil.  Til að gefa ykkur tilfinningu fyrir því hversu mikla fagmenn við erum með í verkinu þá eru þeir þeir einu sem hafa gert breytingar á völlum í Bretlandi sem British Open mótin eru spiluð á. Hér á landi hafa þeir haft veg og vanda með breytingunum á t.a.m. Hvaleyrarvelli hjá golfklúbbnum Keili og þá hefur fyrirtækið verið að vinna með Golfklúbbi Reykjavíkur að breytingum á Grafarholtsvelli.  Starfsmaður fyrirtækisins mun koma hingað til lands í lok aprílmánaðar og kynna ofangreinda breytingartillögu sem stjórn klúbbsins hefur eins og áður segir samþykkt.  Endilega fylgist með þegar þessi fundur verður kynntur nánar og vonandi mæta sem flestir.  Ég hvet félagsmenn einnig og þangað til að skoða heimasíðu Mackenzie og Ebert (mackenzieandebert.com) þar sem sjá má ýmsan fróðleik um fyrirtækið sem og dæmi um þá velli sem fyrirtækið hefur hannað.

Það er gleðiðlegt að segja frá því að Í lok marsmánaðar hleyptum við nýrri heimasíðu klúbbsins af stokkunum. Aukin umferð er á heimasíðu klúbbsins og ljóst er orðið að þörf fyrir góða heimasíðu er orðin árið um kring nú eftir að stórbætt inniæfingaaðstaða opnaði að Nesvöllum.  Við ákváðum að hleypa henni í loftið þrátt fyrir að hún sé ennþá í vinnslu en unnið er hörðum höndum að því að hún verði fullbúin fyrir formlega opnun vallarins í vor.

Inniæfingaaðstaðan okkar, Nesvellir fara virkilega vel af stað og eru vel sóttir af félagsmönnum. Ég skora á þá sem enn eiga eftir að leggja leið sína á Nesvelli sem eru að Austurströnd 5 að kíkja við og skoða þessa glæsilegu aðstöðu.  Nánari upplýsingar um Nesvelli eru eins og áður sagði komnar inn á heimasíðuna okkar nkgolf.is

Móta- og viðburðaskráin okkar er nú tilbúin og geta félagsmenn séð hana inni á golf.is eða með því að smella hér.  Dagskráin er í takti við fyrra ár með örlitlum breytingum þó.  Sérstök frétt mun brátt birtast á heimasíðunni um mótaskránna en þangað til vil ég vekja sérstaka athygli á hreinsunardeginum okkar sem áætlaður er 30. apríl.  Hreinsunardagurinn er öllu jafna upphaf tímabilsins og hefur hann í gegnum árin verið klúbbnum gríðarlega mikilvægur og vel sóttur af félagsmönnum sem hafa mætt og unnið þar mörg dugnaðarverkin í gegnum árin.  Ég hvet því alla félagsmenn til að taka daginn frá en allt verður þetta auglýst betur síðar.

Að lokum vil ég benda á eina breytingu fyrir sumarið sem ég veit að kvöldsvæfir meðlimir klúbbsins munu fagna. Við munum færa tímann fram til kl. 20 í stað 22 þar sem Golfbox opnar á bókanir fyrir nýjan dag. Áfram geta félagsmenn bókað 5 daga fram í tímann. Annars verða fullbúnar reglur um rástímabókanir og -notkun á Nesvellinum birtar á nýju heimasíðunni von bráðar enda er hver rástími verðmætur á jafn þétt setnum velli og okkar og því gríðarlega mikilvægt að við berum öll gagnkvæma virðingu fyrir rástímum, bæði hvað varðar að bóka þá rétt, mæta á bókaða rástíma eða afskrá sig með tilskyldum fyrirvara.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra páska.

Með góðri kveðju,
Þorsteinn Guðjónsson

Formaður