Formannspistill – sumarið sem við bíðum enn eftir….

Nesklúbburinn Almennt, Póstlistar allir

Kæru félagar,

Samkvæmt dagatalinu er komið að sumarlokum og haustið að taka við. Það má alveg spyrja sig hvort þetta sumar hafi nokkuð komið, alla vega hafa veðurguðirnir ekki verið í neinu spariskapi síðustu mánuði og varla man maður eftir eins miklu roki og hefur verið í sumar. Það hafa þó komið dagar á milli og þá hefur ásókn á völlinn verið mjög góð. Það var fleira en gott veður sem við höfum saknað í sumar, en þá er ég að tala um klósettið sem átti að koma upp í sumarbyrjun. Klósettið kom til landsins eins og plön gerðu ráð fyrir fyrstu vikuna í júní og þá var búið að undirbúa uppsetningu á því. Við tók röð atvika sem komu í veg fyrir að það færi upp og enn hefur ekki verið hægt að setja það upp. Ég vil biðjast velvirðingar á þessu og finnst þetta náttúrulega bara mjög leiðinlegt. Úr þessu verður klósettið ekki sett upp fyrir veturinn, en það er á áætlun að það verði komið upp fyrir næsta sumar.

Af framkvæmdum er það helst að frétta að enn erum við að gera ráð fyrir því að bílastæðin verði stækkuð í vetur og verði tilbúin fyrir næsta sumar. Það er nauðsynleg framkvæmd eins og við öll vitum og þá ekki síst með framtíðarskipulag vallarins að leiðarljósi eins og kynnt hefur verið.  Þá liggja fyrir drög að lagfæringum á tveimur glompum, annars vegar á 8. braut og hinsvegar hinum margfræga Hafsteini við 9. flöt.

Íslandsmót barna og unglinga var á haldið á Nesvellinum nú í ágúst og fór mótið vel fram þrátt fyrir misjafnt veðurfar. Frábært var að sjá þátttöku keppenda frá Nesklúbbnum í mótinu og endurspeglar hún þá grósku sem á sér stað í klúbbnum þegar kemur að barna- og unglingastarfinu. Það voru sautján börn frá Nesklúbbnum sem tóku þátt í mótinu og stóðu þau sig öll með stakri prýði.  Þeirra á meðal voru þrír kylfingar úr Nesklúbbnum sem unnu til verðlauna sem er glæsilegur árangur.  Þá ber að geta þess að í liðinni viku eignaðist klúbburinn Íslandsmeistara þegar að Elísabet Þóra Ólafsdóttir sigraði á Íslandsmóti unglinga í holukeppni 12 ára og yngri sem haldið var í Sandgerði.  Stórkostlegur árangur hjá Elísabetu sem sigraði í úrslitaleik á þriðju holu í bráðabana.

Undanfarnar vikur hafa lið Nesklúbbsins verið að spila á Íslandsmótum golfklúbba og hafa þær staðið sig með prýði. Nú eru afrekskylfingar klúbbsins að æfa allt árið um kring og það sýnir sig strax í framgöngu keppnissveita okkar.  Samtals sendi klúbburinn fimmtán lið á ellefu Íslandsmót og margar hverjar enduðu á verðlaunapalli.   Þess má svo geta nú þegar að þessi orð eru rituð er Elsa Nielsen, félagskona í Nesklúbbnum að keppa fyrir Íslands hönd á Evrópumóti eldri kylfinga í Slóveníu.  Glæsilegur árangur hjá Elsu og við sendum henni okkar bestu strauma.

Við höldum vissulega í vonina að við fáum gott haust og hægt verði að spila á vellinum eitthvað inn í haustið. Hann er eiginlega í sínu besta standi akkúrat þessa dagana og því synd ef ekki verður hægt að njóta þess. Á sama tíma vil ég minna á það hversu mikilvægt það er að ganga vel um völlinn því ástandið á honum er mikið undir okkur iðkendunum komið. Göngum frá kylfuförum og pössum vel upp á flatirnar. Eins er mikilvægt að ganga vel um teigana og hafa þá snyrtilega. Ég treysti því að við getum tekið höndum saman um það að skila vellinum góðum inn í veturinn og þá uppskerum við betri og fallegri völl næsta sumar.

Þá læt ég þetta gott heita að sinni og vona að ég sjá sem flesta á vellinum áður en veturkonungur gengur í garð.

Með góðri kveðju,

Þorsteinn Guðjónsson
Formaður