Frábærri Bændaglímu lokið – sumarið búið!

Nesklúbburinn

Bændaglíma Nesklúbbsins fór fram í dag við hinar ágætustu aðstæður.  Bændur voru hjónin Örn Baldursson og Kristín Erna Gísladóttir, félagar í Nesklúbbnum til fjölda ára.  Óhætt er að segja að félögum klúbbsins þyrsti í golf í góðu veðri sem og að sjálfsögðu að kveðja sumarið því þetta var fjölmennasta Bændaglíma sem haldin hefur verið hjá klúbbnum.   Rétt tæplega 70 manns spiluðu þar sem skipt var í lið til helminga og spiluðu allir fyrir sinn bónda þar sem leikið var eftir Texas-scramble fyrirkomulagi.  Venju samkvæmt var ekki leikið til verðlauna í þessu móti heldur fyrir heiðurinn og að þurfa ekki að þjóna til borðs í kvöldmatnum.  Þannig fór að lokum að lið Arnar Baldurs vann og naut hann og hans þjónar því þeirra forréttinda að þurfa ekki að hreyfa sig fyrr en að hnífapörunum kom.  Maturinn var að venju frábær, félagsskapurinn að sjálfsögðu yndislegur og má af því leiða að allir hafi farið sáttir heim

Veitingasölu og klúbbhúsinu hefur nú formlega verið lokað yfir veturinn.  Sumarflatir verða notaðar áfram á meðan veður leyfir en eftir það taka við vetrarflatir sem nú er í fyrsta skipti verið að undirbúa.  Nánari reglur um vetrargolf koma síðar. 

Stjórn Nesklúbbsins vill þakka sérstaklega öllum félagsmönnum fyrir gott og viðburðarríkt golfsumar sem og öðrum gestum sem leið sína lögðu á Nesvöllinn í sumar.