Stjórn klúbbsins samþykkti á dögunum tillögu vallarnefndar um framkvæmdir við völlinn í haust. Farið verður í að breyta og betrumbæta æfingaaðstöðuna austan megin við golfskálann. Stóra framkvæmdin verður u.þ.b. 1100 fermetra púttflöt ásamt rúmlega 500 fermetra vippflöt og æfingaglompu. Í framhaldinu verður púttflötinni sem er við hlið 6. brautar lokað enda stafar orðið af henni töluverð slysahætta. Á 2. braut verður teigurinn lagfærður og munu rauðu teigarnir í framhaldinu verða færðir upp á teiginn þar sem að nú eru gulir teigar. Hafist verður handa á morgun, miðvikudag og má gera ráð fyrir töluverðu raski á meðan á framkvæmdunum stendur. Áætluð verklok eru í október og eru klúbbfélagar og aðrir kylfingar beðnir um að sýna tillitssemi við starfmenn á meðan framkvæmdunum stendur. Aðrar minni framkvæmdir sbr. lagfæringar á glompum við 6. braut, tenging vatnsleiðslu að flötunum á æfingasvæðinu o.fl. verður farið í svo lengi sem verður leyfir.