Kæru félagar,
Vetrarstarf klúbbsins er í fullum gangi en félagsmenn eru greinilega farnir að undirbúa sveifluna fyrir vorferðirnar og sumarið því aðsóknin að Nesvöllum hefur aukist, enda frábær leið til að halda sér í golfformi. Enn eru þó lausir tímar og hvet ég ykkur öll til að kynna ykkur og nota þessa frábæru aðstöðu sem klúbburinn býður upp á.
Það er gaman að segja frá því að golfárið er formlega hafið hjá NK konum og algjörlega málið að mæta á sunnudögum á milli kl. 10-12 á Nesvelli á Austurströnd 5 með pútterinn sinn, vippkylfur og kúlur og taka þátt í skemmtilegu púttmótum Kríanna. Það var mikil stemning þar síðastliðinn sunnudag og verður það án efa fram á vor.
Barna- og unglingastarfið heldur áfram að blómstra og er mikill fjöldi barna og unglinga sem æfir með reglubundnum hætti á Nesvöllum í vetur undir handleiðslu íþróttastjóra og golfkennarana.
Það er svo að frétta að Stuart, nýja vallarstjóranum okkar, að hann hefur hafið störf og er smám saman að stimpla sig inn hjá okkur. Hann verður að hluta til í febrúar og en alkominn til starfa frá og með 1. mars til að undirbúa sumarið.
Nýlega var birt tilkynning frá dómaranefnd Golfsambands Íslands um héraðsdómaranámskeið sem haldin verða í febrúar. Ég vil hvetja alla þá sem hafa áhuga á að ná sér í dómarapróf eða einfaldlega bara að kynna sér golfreglurnar betur að kynna sér málið á heimasíðu Golfsambandsins, golf.is eða með því að smella hér. Námskeiðið er frítt fyrir alla meðlimi Nesklúbbsins og það er engin skilda að gerast dómari.
Töluverðar framkvæmdir hafa verið í og við golfskálann í vetur. Búið er að setja nýja rotþró sem var nauðsynlegt en fjárfrekt verkefni. Inni i skálanum hefur þurft að fara í ýmsar framkvæmdir til að uppfylla nýjar eldvarnarreglur og um leið til að uppfylla öll skilyrði svo halda megi úti veitingasölu klúbbsins. Framkvæmdirnar hafa að mestu snúið að lofti skálans sem nú hefur verið klætt og var ákveðið að setja betri hljóðeinangrun inni í skálanum í leiðinni. Enn og aftur eru það okkar frábæru sjálfboðaliðar sem borið hafa hitann og þungann af þessum framkvæmdum og eins og margoft hefur komið fram verður þeim seint fullþakkað fyrir allt sitt framlag fyrir klúbbinn okkar.
Félagsmönnum til upplýsinga þá verður undirritaður tímabundið fjarverandi frá vinnu í 6-8 vikur. Ekki þarf að örvænta því okkur hefur borist liðsauki þar sem Guðmundur Pálsson mun leysa mig af og sinna hluta af störfum mínum sem ekki mega bíða. Guðmundur er golfari með meiru og mun aðstoða ykkur eins vel eftir fremsta megni. Best er að ná í hann í gegnum netfangið nkgolf@nkgolf.is.
Í lokin hvet ég ykkur að vera dugleg að æfa sveifluna og nýta inneignina ykkar á Nesvöllum því golfsumarið verður komið fyrr en varir. Þið getið pantað tíma í golfhermana í gegnum heimasíðu klúbbsins, nkgolf.is eða í síma 561-1910. Ef þið hafið ekki komið áður, verið ófeimin því starfsfólk mun aðstoða ykkur í gegnum fyrstu skrefin í hermunum. Einnig er alltaf hægt að koma til að æfa pútt og vipp félagsmönnum að kostnaðarlausu og svo er náttúrulega alltaf heitt á könnunni!
Golfkveðja,
Haukur Óskarsson
Framkvæmdastjóri