Frumherji og KEA hótel styrkja Einvígið á Nesinu 2019

Nesklúbburinn

Árlegt góðgerðarmót Nesklúbbsins, Einvígið á Nesinu (shoot-out), verður haldið í 23. skipti á Nesvellinum, mánudaginn 5. ágúst næstkomandi.  Venju samkvæmt er 10 af bestu kylfingum landsins fyrr og síðar boðið til leiks og munu þau í ár spila í þágu BARNASPÍTALA HRINGSINS.  Á Barnaspítalanum er veitt sérhæfð, fjölskyldumiðuð heilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga að 18 ára aldri þar sem í allri þjónustu er áhersla lögð á að greina þarfir og auka vellíðan skjólstæðinga sinna. Bakhjarlar mótsins í ár eru Frumherji og KEA hótel.

Einvígið verður með örlítið breyttu sniði í ár.  Þannig verður enginn höggleikur um morguninn heldur mæta kylfingarnir beint í Einvígið sjálft (shoot-out) sem hefst klukkan 13.00.  Þar dettur eins og áður einn kylfingur út á hverri holu, þar til tveir berjast að lokum um sigurinn á 9. braut.