Göngum vel um völlinn okkar

Nesklúbburinn

Mikið hefur rignt undanfarna daga. Afleiðing þess er að völlurinn er mjög mjúkur og hefur hann líklega ekki verið mýkri að sumarlagi í mörg ár.

Allir klúbbfélagar eru líklega sammála um að þeir vilji hafa völlinn í sem bestu ásigkomulagi þegar tímabilið stendur sem hæst. Til þess að það geti orðið að veruleika þurfum við að taka höndum saman og hlúa vel að vellinum, sérstaklega þegar hann er viðkvæmur.

-Lögum a.m.k. okkar eigið boltafar og eitt annað. Boltaför sem ekki eru löguð strax mynda skemmdir í flatirnar.
-Setjum okkar eigin torfusnepil, og annarra, í kylfufarið.
-Notum kassana með sandinum á par 3 brautum.
-Skiljum við glompur í betra ástandi en þegar við komum að þeim.
-Virðum bönd og skilti sem stjórna umferð.
-Göngum varlega í kringum nýframkvæmdir, nýtt torf þolir illa álag.

Ef við hjálpumst öll að auðveldum við vallarstarfsmönnum verkin og tryggjum okkur frábæran golfvöll í allt sumar.