Það var mikil spenna eins og við var búist á lokadegi 50. meistaramóts Nesklúbbsins. Bráðabana þurfti til að knýja fram úrslit í 1. og 2. flokki karla og í meistaraflokki kvenna réðust úrslit í þriggja holu umspili. Veðrið var kylfingum ekki sérstaklega hagstætt en það hafði ekki mikil áhrif á gæði golfsins sem var oft á tíðum frábært miðað við aðstæður. Úrslit í þeim flokkum er luku leik á laugardag má sjá hér að neðan:
Meistaraflokkur kvenna:
Það var æsispennandi keppni um fyrsta sætið í meistaraflokki kvenna. Fyrir lokaholuna var margfaldur klúbbmeistari, Karlotta Einarsdóttir, með eins höggs forskot á Helgu Kristínu Einarsdóttur. Karlotta sló upphafshögg sitt útaf en fékk fugl á seinni boltann og lék því holuna á samtals fimm höggum. Helga Kristín fékk par og þær luku leik jafnar á 324 höggum samtals. Þriggja holu umspil þurfti til að knýja fram úrslit og þar hafði Helga Kristín betur, hún spilaði holurnar þrjár á pari en Karlotta á einu höggi yfir pari. Glæsilegur sigur hjá Helgu Kristínu og flott barátta hjá þeim báðum. Í þriðja sæti varð Helga Kristín Gunnlaugsdóttir á 340 höggum samtals.
D1 | D2 | D3 | D4 | Samtals | ||
1 | Helga Kristín Einarsdóttir | 82 | 80 | 82 | 80 | 324 |
2 | Karlotta Einarsdóttir | 77 | 87 | 79 | 81 | 324 |
3 | Helga Kristín Gunnlaugsdóttir | 88 | 87 | 86 | 79 | 340 |
Meistaraflokkur karla:
Það var minni spenna í meistaraflokki karla þar sem Ólafur Björn Loftsson sigraði með nokkrum yfirburðum. Ólafur Björn var í forystu allan tímann og sigurinn í raun aldrei í hættu, en Ólafur lauk leik á samtals 14 höggum undir pari. Nökkvi Gunnarsson varð annar og lék hringina fjóra á einu höggi undir pari og Oddur Óli Jónasson þriðji á samtals sex höggum yfir pari.
D1 | D2 | D3 | D4 | Samtals | ||
1 | Ólafur Björn Loftsson | 68 | 70 | 68 | 68 | 274 |
2 | Nökkvi Gunnarsson | 73 | 71 | 71 | 72 | 287 |
3 | Oddur Óli Jónasson | 87 | 64 | 72 | 71 | 294 |
1. flokkur karla:
Það var mikil spenna í fyrsta flokki karla en þar urðu jafnir í efsta sæti Þórður Ágústsson og Kristinn Arnar Ormsson á 312 höggum samtals. Þórður átti fjögur högg á Kristinn Arnar fyrir lokahringinn en Kristinn Arnar vann þann mun upp. Það þurfti því bráðabana til að fá fram úrslit og þar hafði Þórður Ágústsson betur. Í þriðja sæti varð Arngrímur Benjamínsson á 317 höggum.
D1 | D2 | D3 | D4 | Samtals | ||
1 | Þórður Ágústsson | 79 | 73 | 81 | 79 | 312 |
2 | Kristinn Arnar Ormsson | 81 | 78 | 78 | 75 | 312 |
3 | Arngrímur Benjamínsson | 80 | 79 | 80 | 78 | 317 |
2. flokkur karla:
Í öðrum flokki karla stóð Friðrik Jón Arngrímsson uppi sem sigurvegari. Sigur hans var nokkuð öruggur í lokin en hann lék hringina fjóra sjö höggum betur en Þorsteinn Guðjónsson sem varð annar. Jafnir í þriðja til fjórða sæti voru Róbert Vinsent Tómasson og Þorkell Helgason, en Róbert Vinsent hafði betur í bráðabana og hreppti þriðja sætið.
D1 | D2 | D3 | D4 | Samtals | ||
1 | Friðrik Jón Arngrímsson | 87 | 83 | 84 | 82 | 336 |
2 | Þorsteinn Guðjónsson | 82 | 89 | 88 | 84 | 343 |
3 | Róbert Vinsent Tómasson | 90 | 85 | 92 | 91 | 358 |