Einvígið á Nesinu – Shoot out fór fram á Nesvellinum í frábæru veðri í dag. Mótið var fyrst haldið árið 1997 og var þetta því í 21. skipti sem mótið er haldið og eins og ávallt fór það afar vel fram. Venju samkvæmt léku þeir kylfingar sem boðið var í mótið 9 holu höggleik í morgun. þar lék best af öllum Björgvin Sigurbergsson sem nú tók þátt í Einvíginu í 20. sinn en hann lék á 34 höggum, eða tveimur höggum undir pari vallarins.
Eftir hádegið hófst svo Einvígið sjálft þar sem einn keppandi dettur út á hverri holu þar til tveir berjast um sigurinn á 9. braut. Á 9. teignum stóðu eftir þeir Kristján Þór Einarsson úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar og Guðmundur Rúnar Hallgrímsson úr Golfklúbbi Suðurnesja og fór svo að lokum að Kristján Þór sigraði eftir að þeir höfðu báðir fengið par á holuna og svo sigraði Kristján Einvígi (shoot-out) í lokin.
Að móti loknu var svo verðlaunaafhending og keppendum afhendur þakklætisvottur fyrir þátttökuna. Mótið var að venju góðgerðarmót og afhenti Auður Þórarinsdóttir, frá DHL á Íslandi, Guðjóni Jóhannssyni frá Vinaliðaliðaverkefninu, eina milljón króna en verkefnið leggur áherslu á að stöðva einelti í skólum.
Nesklúbburinn vill þakka keppendum kærlega fyrir þátttökuna, áhorfendum, DHL á Íslandi, Stöð2sport og umfram allt þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem gerðu klúbbnum kleift að halda þetta mót.
1. sæti: Kristján Þór Einarsson, GM
2. sæti: Guðmundur Rúnar Hallgrímsson, GS
3. sæti: Birgir Björn Magnússon, GK
4. sæti: Björgvin Sigurbergsson, GK
5. sæti: Valdís Þóra Jónsdóttir, GL
6. sæti: Björgvin Þorsteinsson, GA
7. sæti: Ingvar Andri Magnússon, GR
8. sæti: Úlfar Jónsson, GKG
9. sæti: Oddur Óli Jónasson, NK
10. sæti:Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR
11. sæti: Ragnhildur Kristinsdóttir, GR