Kristján Þór sigraði í 18. Einvíginu á Nesinu

Nesklúbburinn

Hið árlega góðgerðarmót, Einvígið á Nesinu, fór fram á Nesvellinum í dag.  Venju samkvæmt er tíu af bestu kylfingum landsins boðin þátttaka sem spiluðu í ár í þágu einhverfa barna.

Mótið var með hefðbundnu sniði þar sem keppendur spiluðu fyrst 9 holu höggleik í morgun og eftir hádegið hófst svo einvígið sjálft sem fer fram með shoot-out fyrirkomulagi þar sem einn kylfingur dettur út á hverri holu þar til að loknum 9 holum einn stendur uppi sem sigurvegari.

DHL Express á Íslandi hefur verið styrktaraðili mótsins frá upphafi og ávallt styrkt félög eða samtök sem láta sér hag barna varða. Í ár var það Styrktarfélag barna með einhverfu sem naut góðs af, en félagið styrkir og styður málefni er varðar einhverf börn.  

Mótið gekk í alla staði mjög vel og talið er að á fjórða hundrað áhorfendur hafi fylgst með kylfingunum leika við við hvern sinn fingur í góðu veðri á Nesvellinum.  Svo fór að lokum að Kristján Þór Einarsson úr golfklúbbnum Kili sigraði eftir spennandi lokaholu þar hann átti í höggi við Hlyn Geir Hjartarson. Kristján Þór fékk fugl á lokaholuna með því að setja í tæplega tveggja metra pútt og tryggði sér þannig frækinn sigur.

Í mótslok fór fram verðlalaunaafhending og keppendum veittar viðkurkenningar fyrir þátttökuna, ásamt því að Rannveig Tryggvadóttir meðstofnandi Styrktarfélags barna með einhverfu tók á móti ávísun upp á eina milljón króna frá Caroline Lefort starfsmanni DHL.  

Úrslitin í einvíginu urðu annars eftirfarandi:

1. sæti: Kristján Þór Einarsson, GKJ
2. sæti: Hlynur Geir Hjartarson, GOS
3. sæti: Ólafur Björn Loftsson, NK
4. sæti: Björgvin Sigurbergsson, GK
5. sæti: Axel Bóasson, GK
6. sæti: Þórður Rafn Gissurarson, GR
7. sæti: Nökkvi Gunnarsson, NK
8. sæti: Bjarki Pétursson – GB
9. sæti: Helga Kristín Einarsdóttir – NK
10. sæti: Tinna Jóhannsdóttir – GK

Höggleikur:

1. sæti: Ólafur Björn Loftsson, NK – 34 högg
2. sæti: Bjarki Pétursson, GB – 35 högg
3. sæti: Nökkvi Gunnarsson, NK – 36 högg 

Mótið var tekið upp af sjónvarpsstöðinni Stöð2sport og verður sjónvarpað á fimmtudagskvöld.