Aðalfundur klúbbsins verður haldinn á morgun, fimmtudag kl. 19.30 í hátíðarsal Gróttu á Austurströnd. Á fundinum verður samkvæmt lögum félagsins kosið til stjórnar. Eins og áður hefur komið fram bárust kjörnefnd fundarins samtals 6 framboð, þ.a. eitt til formanns og fimm til stjórnar. Frambjóðendum gafst kostur á því að kynna sig hér á heimasíðu klúbbsins fyrir fundinn og má sjá þær kynningar hér neðar. Athugið að það hefur ekki tíðkast á aðalfundum Nesklúbbsins að fundarmenn geti kosið fyrir hönd annarra á grundvelli umboðs og sami háttur hafður á á þessum aðalfundi.
Til formanns: Þorsteinn Guðjónsson
Til stjórnar í stafrófsröð:
- Árni Vilhjálmsson
- Bjartur Logi Finnsson
- Georg Haraldsson
- Jóhann Karl Þórisson
- Þórkatla Aðalsteinsdóttir
Kynningar frá frambjóðendum eru eftirfarandi.
Árni Vilhjálmsson
Ágætu félagar Nesklúbbsins!
Ég, öldungurinn Árni Vilhjálmsson, og gef kost á mér til áframhaldandi stjórnarsetu til næstu tveggja ára. Ég var fyrst kjörinn í stjórn Nesklúbbsins árið 2016 og þótt þetta sé orðin nokkur þráseta tel ég mig geta lagt gott til í stjórninni. Ég hef verið ritari stjórnarinnar undanfarin ár og gegnt formennsku í stjórnskipaðri aganefnd. Ég brenn fyrir því að þær breytingar á vellinum sem hafa verið í umræðunni um nokkurt skeið og verið kynntar af okkur í stjórninni komist á framkvæmdastig.
Sagt hefur verið um mig að ég viti allt um golf en geti ekki neitt. Það er heilmikið til í því enda stafar engin ógn af mér í golfmótum. Bíðið þið bara. Golfið er stór hluti af lífi mínu og hefur fylgt mér lengi. Ég kom hér á golfvöllinn á Suðurnesi á sjöunda áratug síðustu aldar sem kylfusveinn með föður mínum. Ég gekk í GR 1984 og var þar til 2016 og í Nesklúbbnum hef ég verið síðan 1995. Þá hef ég verið í Golfklúbbi Kiðjabergs síðan 2016 og eitt sumarið var ég í öllum þremur klúbbunum. Það var svona einum of.
Ég óska eftir þínum stuðningi
Árni Vilhjálmsson
Bjartur Logi Finnsson
Kæru Nesklúbbsfélagar
Bjartur Logi Finnsson heiti ég og gef kost á mér til setu í stjórn Nesklúbbsins til næstu tveggja ára. Ég hef verið kylfingur í 35 ár þar af rúmlega 20 ár verið meðlimur í Nesklúbbnum. Áður var ég meðlimur í Golfklúbbi Hornafjarðar þar sem ég ólst upp en ég og fjölskylda mín höfum búið á Seltjarnarnesi síðan árið 1995. Ég brenn fyrir áframhaldandi uppbyggingu Nesklúbbsins og hlakka mikið til að sjá, fá að njóta og taka þátt í þeim breytingum sem stefnt er að á vellinum okkar og eru komnar í ákveðið ferli. Sjálfur er ég meistaraflokkskylfingur en golfið er ekki allt fyrir mér í dag, það sem ég sækist orðið meir og meir eftir er sá góði félagsskapur sem því fylgir að vera meðlimur í Nesklúbbnum svo er það útiveran og sú mikla nálægð við náttúruna sem völlurinn okkar bíður uppá, og með því að vera meðlimur í NK næ ég að sameina þetta tvennt. Ég er á því að stjórn klúbbs eins og Nesklúbbsins eigi að endurspegla þverskurð félagsmanna. Þ.e.a.s. kynjahlutfall sé haft í hávegum og einnig sé gott að sem flestir hópar eigi sinn málsvara innan stjórnar, byrjendur, afrekskylfingar og hinn almenni félagi. Ég tel mig hafa margt fram að færa fyrir klúbbinn hef mikla reynslu á að vinna með fólki þar sem ég hef unnið við tónlist í yfir 30 ár og er sölustjóri á stóreldhússviði Haga en í báðum störfum umgengst ég mikið fólki sem nærir sálina. Svo er það eins og áður sagði nálægðin við náttúruna, fyrir mig sem er alinn upp úti á landi að hafa gott aðgengi að náttúrunni er ómetanlegt og þurfum við að halda áfram að framkvæma á vellinum okkar og vinna að því að hvorki líf né náttúra spillist.
Hlýjar kveðjur
Bjartur Logi Finnsson
Georg Haraldsson
Kæru félagar,
Ég heiti Georg Haraldsson og býð mig fram til stjórnar Nesklúbbsins til næstu tveggja ára. Ástæða framboðs míns er einlægur áhugi á að leggja mitt af mörkum til að bæta starf klúbbsins, þróa það til framtíðar og styðja við fjölbreyttan hóp félagsmanna.
Ég tel að þörf sé á ákveðinni endurnýjun og nýjum sjónarmiðum í stjórn klúbbsins. Með þekkingu minni, reynslu og áhuga vil ég einbeita mér að ýmsum atriðum sem mér finnst skipta félagsmenn máli, svo sem:
- Mót: Mig langar að sjá fleiri innanfélagsmót yfir allt tímabilið, bæði innan- og utanhúss.
- Æfingar fyrir alla: Mig langar að sjá fjölbreyttari möguleika fyrir meðlimi á öllum aldri og getustigum til að stunda æfingar í íþróttinni til að bæta sig.
- Aðgengi og innviðir: Að tryggja að framkvæmdir mæti þörfum breiðari hóps félagsmanna til að gera völlinn okkar skemmtilegri.
- Barna- og unglingastarf: Að efla afrekshugsun enn frekar og styðja betur við næstu kynslóð kylfinga.
Ég hef reynslu af barna- og unglingastarfi, m.a. í gegnum hlutverk mitt í Barna- og unglingaráði knattspyrnudeildar KR, sem mig langar til að miðla áfram til klúbbsins. Auk þess hef ég verið virkur félagi í Nesklúbbnum um árabil og á þrjú börn sem hafa æft golf hjá klúbbnum.
Ég hvet ykkur eindregið til að mæta á aðalfundinn þann 28. nóvember og taka þátt í því að móta framtíð Nesklúbbsins okkar.
Takk fyrir að gefa mér tækifæri til að leggja mitt af mörkum fyrir Nesklúbbinn!
Með bestu kveðju,
Georg Haraldsson
Jóhann Karl Þórisson
Kæru félagsmenn
Jóhann Karl Þórisson heiti ég og er lögreglumaður til 30 ára, starfa í dag sem aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglustjóranum á Höfuðborgarsvæðinu.
Ég hef alla tíð verið mikið félagsmálatröll, var formaður Golfklúbbsins á Geysi frá stofnun hans í 10 ár og verið formaður i Golfklúbbi Lögreglunnar frá árinu 2005. Að auki hef ég setið í nefndum og unglingaráðum hjá bæði handknattleiksdeild og körfuboltadeild KR meðan dætur mínar og synir voru þar við æfingar, Það er í eðli mínu að gefa af mér til félagsmála og vera virkur og vinna fyrir félagsmenn að því að allur aðbúnaður og stemmning sé fyrsta flokks
Ég hef setið í stjórn Nesklúbbsins undanfarin ár. Fyrst var ég formaður vallarnefndar á árunum 2019-2022 og nú síðustu ár sem formaður mótanefndar og mótsstjóri meistaramótsins okkar. Hef komið að skipulagningu margra móta og átt þátt í innleiðingu nýrra móta eins Meistaramótsins í betri bolta, hjóna- og parakeppninnar og öldungabikarsins með breyttu fyrirkomulagi.
Ég er ötull talsmaður þess að golf sé grunnur að góðri lýðheilsu og það sé nauðsynlegt hverjum sem fjarlægist fimmtugs aldurinn að fá góða hreyfingu í góðum félagsskap ekki síst í okkar góða klúbbi úti á Nesi þar sem félagsandinn blómstrar utan vallar sem innan
Spennandi tímar eru fram undan og nú hillir loks í að unnt verði að byrja á framkvæmdum við breytingarnar á vellinum sem kynntar voru fyrir tveim árum síðan með því að safna fé í framkvæmdarsjóð sem vonandi verður samþykkt á aðalfundi. Þá getum við farið að undirbúa gerð par 3 vallarins á æfingasvæðinu og í framhaldi af þeim framkvæmdum aðrar breytingar það verður spennandi að takast á við það verkefni
Ég óska því eftir áframhaldandi stuðnings ykkar til stjórnarsetu í Nesklúbbnum
Jóhann Karl Þórisson
Þórkatla Aðalsteinsdóttir
Ágætu félagsmenn.
Ég heiti Þórkatla Aðalsteinsdóttir og er sálfræðingur og stofnandi og einn eigenda hjá Lífi og sál sálfræði og ráðgjafastofu.
Ég hef í mörg ár starfað mikið innan vinnustaða, er mikil áhugamanneskja um samskipti, vellíðan á vinnustað og ekki síst vellíðan í lífinu sjálfu. Í gegnum starfið hef ég kynnst allskonar fólki og ekki síst allskonar vinnustöðum og verkefnum tengdum þeim. Ég hef langa reynslu í ráðgjöf vegna starfsmannamála og samskipta á vinnustöðum. Ég hef töluverða reynsu af félagsstörfum í gegnum starfið, s.s eins og seta í stjórn Barnaheilla, stjórn félags sjálfsstætt starfandi sálfræðinga, en með tímanum hefur meiri tími farið í áhugamálin en félagsmálin.
Ég byrjaði að spila golf fyrir 12 árum síðan og það varð mín leið til að slaka á, fást við eitthvað annað en starfið en sem er bæði krefjandi, spennandi og skemmtilegt. Mér er sagt að golf sé ekki áhugmál hjá mér en frekar þráhyggja og hin vinnan 😊 .
Ég er meðlimur Nesklúbbsins frá árinu 2015 og hef setið í stjórn klúbbsins undanfarin tvö ár sem meðstjórnandi en einnig í forvarna og lýðheilsunefnd klúbbsins. Þá hef ég keppt fyrir hönd klúbbsins á Íslandsmótum golfklúbba. Ég er stolt af starfi Nesklúbbsins, þessu öfluga barna- og unglingastarfi en einnig umgjörðinni allri, þessu persónulega og notalega andrúmslofti. Mér finnst mikilvægt að halda í sérkenni þessa gamalgróna og öfluga klúbbs en auðvitað jafnframt fylgjast með og taka þátt í þeim breytingum og kröfum sem hafa orðið í samfélaginu á t.d. sjálfbærni og virðingu við umhverfið.
Mér hefur fundist bæði skemmtilegt en líka mjög lærdómsríkt að fá að starfa í stjórninni. Framundan eru spennandi tímar, uppbygging og breytingar. Ég hef því ákveðið að gefa áfram kost á mér til stjórnarsetu. Ég óska því eftir stuðningi ykkar og umboði til þess.
Sjáumst sem flest á aðalfundinum!