Nesklúbburinn gerir samninga við unga og efnilega kylfinga

Nesklúbburinn

Í vikunni undirritaði Kristinn Ólafsson, formaður Nesklúbbsins og Nökkvi Gunnarsson golfkennari fyrir hönd Nesklúbbsins samninga við átta unga og efnilega kylfinga klúbbsins.  Um er að ræða samstarf Klúbbsins og umræddra kylfinga er taka þátt í starfi klúbbsins á árinu.   Í hópnum eru átta drengir á aldrinum 14 – 17 ára sem stunda markvissar æfingar allt árið á vegum klúbbsins og leika undir merkjum Nesklúbbsins á mótaröðum golfsambands Íslands.  Því miður eru engar stúlkur í hópnum að þessu sinni en það verður vonandi á komandi árum þar sem eitt af markmiðum Nesklúbbsins er að fjölga stúlkum í golfi.

Á meðal þess sem Neskúbburinn leggur til skipulagðar æfingum, afnot af æfingaboltum án endurgjalds til eigin æfinga og einkakennslu hjá golfkennara.  Einnig fá þeir styrk vegna þátttöku í stigamótum og Íslandsmótum á vegum GSÍ.

Framlag kylfinganna til golfklúbbsins er m.a. mætingaskylda á æfingar og mætingar á golfmót í samræmi við áætlun golfkennara.  Keppniskylfingur skal ávallt vera til fyrirmyndar innan sem utan vallar, taka þátt í uppbyggingu barna- og unglingastarfi Nesklúbbsins, gæta að snyrtimennsku og neyta ekki tóbaks eða vímuefna.