Ný inniaðstaða Nesklúbbsins

Nesklúbburinn

Síðasti dagur vetrar var í meira lagi sögulegur dagur fyrir Nesklúbbinn.  Þá skrifuðu forsvarsmenn klúbbsins undir samning við fasteignafélagið REITI um afnot af húsnæði sem notað verður fyrir inniaðstöðu klúbbsins á veturna til næstu ára. Húsnæðið sem um ræðir er 450m2 og er staðsett á 3. hæðinni á Eiðistorgi og eru möguleikarnir fyrir klúbbinn gríðarlegir með tilkomu þessa samnings.  Allar æfingar fyrir unglingastarf klúbbsins munu færast þangað úr Lækningaminjasafninu, þar verður komið fyrir nýjustu gerð af golfhermi ásamt því að þar verður bæði púttflöt og svo net til þess að slá í.  Hugmyndir eru uppi um að tengjast með einhverju móti starfi skólanna, bjóða eldri borgurum Seltjarnarness að koma reglulega að pútta en umfram allt að gera starf klúbbsins betra og öflugra allt árið um kring fyrir hinn almenna félagsmann.  Þá mun golfkennari klúbbsins hafa sína aðstöðu á staðnum og geta boðið upp á mun betra umhverfi til kennslu en hún er í dag.  

Framundan er mikil vinna við lagfæringar og endurbætur á húsnæðinu til þess að sníða það eftir þeim þörfum sem liggja fyrir. Búið er að setja saman hóp nokkurra félagsmanna sem mun sjá um að leiða það verkefni áfram.  Í framhaldinu verður svo leitað til allra félagsmanna um að leggja hönd á plóg í sjálboðavinnu því næg eru verkefnin.  

Í næstu viku stendur til að opna húsnæðið á tilteknum tíma fyrir þá félagsmenn sem hafa áhuga á að koma og kynna sér nánar hvað um er að ræða og verður það auglýst hér á síðunni.

Stjórn klúbbsins sér fram á miklar betrumbætur fyrir allt vetrarstarf klúbbsins og er afar stolt af því að hafa náð að klára þennan samning.  Sérstökum þökkum til fasteignafélagsins REITA sem gerði klúbbnum þetta mögulegt er hér með komið á framfæri.

Til hamingju kæru félagsmenn