Óli Lofts rær á ný mið

Nesklúbburinn

Ólafur Björn Loftsson, marfgaldur klúbbmeistari í Nesklúbbnum og okkar fremst kylfingur til margra ára, hefur ákveðið að ganga til liðs við Golfklúbb Kópavogs og Garðabæjar.  Ólafur hefur, eins og klúbbfélagar vita, leikið sem atvinnumaður í nokkur ár og eru markmið hans að komast inn á stærstu atvinnumótaraðirnar sem í boði eru.  Hann telur þetta skref stóran þátt í því að ná þeim markmiðum og gerir þetta í fullri sátt við forráðamenn Nesklúbbsins. 

„Ég hef spilað allan minn feril fyrir hönd Nesklúbbsins og á óteljandi góðar minningar af Nesvellinum.  Ég vil taka það skýrt fram að ég tek þessa erfiðu ákvörðun í góðri vinsemd við klúbbinn og ég mun halda áfram að vera í góðu sambandi við hann.  Ég ber sterkar tilfinningar til Nesklúbbsins og vil ég koma á framfæri sérstökum þökkum til klúbbsins og allra þeirra fjölmörgu félagsmanna sem hafa ávallt stutt afar vel við bakið á mér og hjálpað mér að ná mínum markmiðum“ birti Ólafur á fésbókarsíðu sinni rétt áðan.

Nesklúbburinn óskar Ólafi, sem að sjáfsögðu verður áfram félagsmaður í Nesklúbbnum, alls hins besta á nýjum vettvangi.