Opna Þjóðhátíðardagsmótið fór fram á Nesvellinum í dag. Stíf austanátt setti svip sinn á leik þeirra sem fóru út fyrir hádegi en svo lægði töluvert eftir hádegi og þegar sólin skein var fínasta veður til golfleiks. Þegar mótið hófst höfðu færri komist að en vildu. Þónokkrir kylfingar boðuðu forföll og nokkrir létu ekki sjá sig án útskýringa sem er að sjálfsögðu óviðunandi framkoma. Mótið sem er haldið í samstarfi við ICELANDAIR er 18 holu höggleikur og punktakeppni og voru veitt þrenn verðlaun í báðum flokkum. Þar fyrir utan voru veitt nándarverðlaun á par þrjú holum og í tveimur höggum á 8./17. holu ásamt því að dregið var úr skorkortum í mótslok. Guðjón Petersen úr golfklúbbi Ásatúns átti svo sannkallaðan draumahring í dag. Guðjón sem er með 17 í vallarforgjöf fékk m.a. örn á 10. holu og kláraði svo hringinn á tveimur fuglum á 17. og 18. holu. Hann lék á 80 höggum og fékk fyrir það 45 punkta sem er frábær árangur. Arnór Ingi Finnbjörnsson úr Golfklúbbi Reykjavíkur lék á besta skori dagsins, 69 höggum eða þremur höggum undir pari vallarins. Annars voru helstu úrslit í mótinu eftirfarandi:
Höggleikur:
1. sæti – Arnór Ingi Finnbjörnsson, GR – 69 högg
2. sæti – Nökkvi Gunnarsson, NK – 70 högg
3. sæti – Rúnar Geir Gunnarsson, NK – 72 högg
Punktakeppni:
1. sæti – Guðjón Petersen, GÁS – 45 punktar
2. sæti – Eyjólfur Sigurðsson, NK – 39 punktar
3. sæti – Friðrik J. Arngrímsson, NK – 39 punktar
Nándarverðlaun:
2./11. hola – Arnór Ingi Finnbjörnsson, GR – 1,94 m. frá holu
5./14. hola – Ellen Rut Gunnarsdóttir, NK – 1,47 m. frá holu
8./17. hola – Rafn Stefán Rafnsson, GO – 0 cm (fékk örn í báðum hringjum)
Nánari úrslit má sjá hér