Eins og gefið var út í upphafi tímabilsins var ákveðið að hafa rástímaskráningu á Nesvellinum fyrsta mánuðinn. Fyrst og fremst var það gert til að framfylgja reglum um hópamyndanir í ljósi alls þess ástands sem verið hefur. Það hefur heppnast vel og heilt yfir hafa félagsmenn tekið þessari breytingu með jafnaðargeði þó eðlilega sitt sýnist hverjum.
Völlurinn hefur verið nokkuð vel nýttur þessar fyrstu tvær vikur tímabilsins og hafa nú þegar 58% félagsmanna einhverntíman pantað sér rástíma á ekki lengra tímabili. Bestu fréttirnar eru eflaust þær að umferðin hefur dreifst mjög vel um völlinn, leikurinn gengur hraðar og spilatími hefur afar sjaldan farið yfir tvær klukkustundir á 9 holum.
Í upphafi setti stjórn klúbbsins þær takmarkanir að eingöngu félagsmenn gætu bókað rástíma. Það var gert í tvennum tilgangi. Annarsvegar til þess að takmarka umferð um völlinn sem hefur verið mjög viðkvæmur í vor sökum tíðarfars. Hinsvegar var það gert til þess að gefa félagsmönnum aukið framboð á rástímum á meðan allir eru að venjast bókunarkerfinu í Golbox.
Nú er svo komið að við ætlum að heimila öðrum en meðlimum aðgengi og verður völlurinn því opinn öllum frá og með mánudeginum 25. maí næstkomandi. Áfram munu félagsmenn njóta forgangs þar sem þeir munu geta bókað rástíma allt að fimm daga fram í tímann á meðan utanað komandi geta bókað sig daginn eftir og/eða samdægurs.
Að gefnu tilefni viljum við hvetja alla til að afbóka rástíma á Golfbox ef aðstæður breytast og ekki stendur til að mæta – því fyrr því betra.
GOTT AÐ HAFA Í HUGA FYRIR RÁSTÍMABÓKANIR:
- Golfbox opnar fyrir „næsta bókunardag“* kl. 22.00 alla daga. Félagsmenn geta bókað allt að fimm daga fram í tímann. Það er bara fyrstur kemur – fyrstur fær.
- Reynum að fullbóka hollin frekar en að skrá okkur „tvö og tvö“. Það eykur möguleika annarra á að komast að saman. Þar fyrir utan bara kynnumst við fleirum.
- MUNUM AÐ AFBÓKA – það er gert á sama stað í Golfbox eins og verið sé að bóka rástíma.
* Næsti bókunardagur er allt að fimm daga fram í tímann fyrir félagsmenn. T.d. kl. 22.00 á sunnudegi opnar fyrir rástímabókun næsta föstudaginn.