Stjórnarfréttir

Nesklúbburinn

Gleðilegt nýtt golfár kæru félagar

Aðalfundur Golfklúbbs Ness var haldinn laugardaginn 28. nóvember síðastliðinn og var vel sóttur af félögum klúbbsins. Um 120 félagar mættu á fundinn. Þetta sýnir þann mikla áhuga sem einkennir starf Nesklúbbsins. Ólafur Ingi Ólafsson lét af störfum eftir þrjú ár sem formaður og eru honum þökkuð góð störf fyrir klúbbinn. Tveir voru í framboði til formanns á aðalfundinum þeir Kristinn Ólafsson og Friðrik Friðriksson og var Kristinn kjörinn formaður. Aðrir stjórnarmenn sem voru í kjöri gáfum kost á sér áfram og voru sjálfkjörnir.

Haldnir hafa verið tveir stjórnarfundir frá aðalfundi.  Á fyrsta stjórnarfundi skipti stjórn með sér verkum og var ákveðið að stjórnin yrði eins skipuð og á síðasta starfsári þ.e. að Áslaug Einarsdóttir verður áfram varaformaður, Geirarður Geirarðsson gjaldkeri, Oddur Óli Jónasson ritari og Arnar Friðriksson meðstjórnandi. Þuríður Halldórsdóttir og Guðrún Valdimarsdóttir eru varamenn í stjórninni. 

Mörg áhugaverð verkefni eru framundan hjá klúbbnum þetta starfsárið. Stjórnin mun á næstunni forgangsraða þessum verkefnum og kynna fyrir félögum. Mörg góð verkefni hafa verið í gangi og verður þeim áfram fylgt eftir. Í könnun sem gerð var meðal klúbbfélaga í haust kom m.a. fram mikil ánægja með vinnu klúbbsins við að auka leikhraða á vellinum. Áfram verður haldið með þessa vinnu í samvinnu við félaga klúbbsins. Í vor verða haldnir kynningarfundir fyrir klúbbfélaga þar sem niðurstöður könnunarinnar verða kynntar og einnig munum við rifja upp hvernig við getum haldið uppi auknum leikhraða því aukinn leikhraði hefur bein áhrif á leikgleði á vellinum. 

Vinna er hafin við að skipa í nefndir klúbbsins og var ákveðið á fyrsta stjórnarfundi að sameina vallar- og umhverfisnefnd en Eggert Eggertsson bar fram tillög á aðalfundi klúbbsins þess efnis. Umhverfismál eru stöðugt að fá meiri athygli og því er stjórn sannfærð að þessi sameining sé til bóta fyrir framtíðarstarf klúbbsins. Einnig þarf klúbburinn að vinna náið með bæjarstjórn Seltjarnarness um þróum vestursvæðisins og þar verður hlutverk þessarar nefndar mikilvægt. 

Þau málefni sem verða tekin fyrir á næstunni verða m.a. mótahald á vellinum á næsta tímabili, klára afreksstefnu klúbbsins, skoða leiðir til að bæta nýtingu vallarins.  Einnig verður haldið áfram að bæta ástandið á vellinum enda mikil ánægja meðal félagsmanna um það hvernig hefur tekist til. 

Búið er að opna inniaðstöðu klúbbsins í Lækningaminjasafninu og hvetur stjórn félaga klúbbsins til að nýta sér aðstöðuna sem er stöðugt að batna. 

Stjórn klúbbsins hvetur einnig félagsmenn til að hafa samband við stjórn eða framkvæmdastjóra ef það vakna upp einhverjar spurningar um starfsemi klúbbsins.