Stjórnarfréttir

Nesklúbburinn

Janúarfréttir frá stjórn

9. janúar síðastliðinn var annar stjórnarfundur starfsársins 2013 haldinn.

Á fundinum voru lagðar fram tillögur frá afmælisnefnd sem skipuð var s.l. haust til þess að koma með hugmyndir um hvernig halda skuli upp á 50 ára afmæli klúbbsins sem er á næsta ári. Í tillögunum kennir ýmissa grasa; þar er m.a. rætt um gerð afmælismerkis og framleiðslu varnings sem merktur yrði með því, samkomu- og sýningarhald, afmælismót og útgáfu afmælisrits. Stjórnin ætlar að funda með nefndinni innan skamms til skrafs og ráðagerða.

Þeir félagar sem búa yfir snjöllum hugmyndum varðandi afmælishaldið eru hvattir til þess að hafa samband við framkvæmdastjóra eða formann sem fyrst.

Áfram var haldið með undirbúning fyrir íbúaþingið, en því hefur verið frestað til 7. febrúar. Tilgangurinn er að ræða með heildstæðum hætti hugmyndir Seltirninga um framtíðarskipan og samspil umhverfis, útivistar, skipulags, menningar og mannlífs almennt. Þannig á væntanlega að reyna að nálgast hvernig við viljum sjá Nesið fyrir okkur sem bæjarfélag í framtíðinni. Félagar sem hyggjast sækja þingið eru hvattir til að kynna sér athyglisverðan bækling um samnýtingu útivistarsvæða (sjá vefslóð hér að neðan) og setja sig í samband við framkvæmdastjóra eða formann og ræða málin.

http://sterf.golf.se/dynamaster/file_archive/111205/bebd1fe5a769bba1d8692a44a40544af/STERF%5fMULTIFUNK%5fISL%20final%20low%2dres.pdf

Nú er hafin söfnun netfanga klúbbfélaga með úthringingum og sækist það verk ágætlega. Eitt af því sem stjórnin áætlar að nýta netfangalistann í að þessari söfnun lokinni, er að gera viðhorfskönnun meðal félaga.

Starfsbréf nefnda á vegum klúbbsins þar sem hlutverk þeirra, upplýsingaskylda og ábyrgðarsvið er skilgreint er í vinnslu og var tillaga lögð fyrir fundinn. Gert er ráð fyrir að afgreiða starfsbréf fyrir allar nefndir á næsta fundi stjórnar. Enn fremur var farið yfir nefndaskipan. Þeir sem áhuga hafa á að starfa í nefndum eru beðnir að gefa sig fram hið fyrsta við framkvæmdastjóra eða formann, en áætlað er að ljúka við að skipa í nefndir á næsta stjórnarfundi sem væntanlega verður haldinn í annarri viku febrúar.

Ákveðið var að halda herrakvöld föstudaginn 1. mars og dömukvöld laugardagskvöldið 9. mars. Takið kvöldið strax frá því þessar skemmtanir hafa verið afar vel heppnaðar undanfarin ár.

Næsti stjórnarfundur verður í byrjun febrúar.  Fyrir athugasemdir og tillögur á málefnum skal senda tölvupóst á haukur@nkgolf.is og/eða olingi@nkgolf.is