Stjórnarfréttir

Nesklúbburinn

Stjórnarfréttir í byrjun sumars

Það hefur talsvert á dagana drifið síðan síðustu stjórnarfréttir voru sendar út.

Þar ber auðvitað hæst afmælisdaginn sjálfan 4. apríl en fréttir af afmælishátíðinni má sjá hér http://nkgolf.is/Article/afar_ngjuleg_afmlisht_2014_04_09_20_17_17

Hreinsunardagurinn tókst líka vel eins og ævinlega og þakkar stjórnin öllum þeim sem þar lögðu hönd á plóg. Hér http://naermynd.photoshelter.com/#!/index/C0000WinuMrcOMj0/G0000CmN_ErqSja8/1 má sjá glæsilegar myndir hirðljósmyndarans okkar Guðmundar í Nærmynd af mann- og fuglalífi þennan ágæta vordag. Guðmundur á mjög gott safn mynda frá síðustu árum og hvetjum við klúbbfélaga eindregið til þess að kynna sér safnið og kaupa sér útprent af uppáhalds myndunum sínum.

Eins og menn muna gerði Capacent könnun meðal þeirra félaga sem skráðir voru með netfang síðastliði haust (sem minnir á að allir sem telja að þeir séu ekki á póstlistanum eru hvattir til að senda póst á Hauk á netfangið nkgolf@nkgolf.is). Niðurstöður voru mjög afgerandi varðandi nokkra þætti og hefur stjórnin þegar brugðist við þeim helstu.

Þess vegna tekur ræsir til starfa nú á allra næstu dögum. Tilgangurinn er fyrst og fremst að bæta nýtingu vallarins og flýta leik. Félagar eru hvattir til að taka vel á móti þessari nýjung, en samkvæmt könnuninni töldu þrír af hverjum fjórum að ráðning ræsis væri til verulegra bóta.Þeir sem tekið hafa að sér starfið eru vel þekktir á vellinum. Það er Dagur Jónasson sem mun annast ræsingu og eftirlit með leikhraða þegar þörf er á fyrripartinn á virkum dögum en Kristján Georgsson og Eiður Ísak Broddason munu skipta með sér kvöld og helgarvöktum. Svo er bara að muna; 10 mínútur milli ráshópa, aldrei færri en fjórir í holli á álagstímum og halda alltaf í við næsta hóp á undan!

Spurt var um vinavelli, notkun þeirra og áhuga á breytingum, en hægt var að nefna hvaða golfvöll sem var í könnuninni. Vinsælastur varð Hamarsvöllur í Borgarnesi, en á hæla hans fylgdu Hella, Kjölur í Mosfellsbæ, Akranes og Kiðjaberg. Haft var samband við alla þessa klúbba og niðurstaðan varð að Akranesvöllurinn bætist við sem fimmti vinavöllurinn í ár. Kiðjaberg hafði ekki áhuga, en ennþá er hugsanlegt að einhverskonar samningur verði gerður við Kjöl áður en langt um líður. Sjá nánar hérhttp://nkgolf.is/umnk/vinavellir

Stærsta fréttin þessa dagan tengist GEO umhverfisvottuninni sem klúbburinn hlaut á afmælisdaginn. Þar var eitt mál tiltekið sem þyrfti að bæta úr sem fyrst, en það var aðstaðan við vélageymsluna, þar sem m.a. vantaði áríðandi mengunarvarnir. Nú hefur náðst samningur við bæinn um nokkurskonar vinnuskipti, en bærinn mun sjá um framkvæmdir við planið og veginn að því en klúbburinn í staðinn sjá um slátt og viðhald á nýja grasvellinum á Valhúsahæð næstu árin. Vonast er til að framkvæmdin taki skamman tíma og næsta víst að vallarstarfsmenn og vonandi félagsmenn munu kunna að meta bætta aðstöðu. Stjórnin fagnar þessum samningi mjög enda hefði annars látið nærri að allt framkvæmdafé næstu 3-4 ára þyrfti að fara í verkefnið. 

 

Stjórn Nesklúbbsins óskar öllum félagsmönnum og öðrum kylfingum gleðilegs golfsumars